Bjóða út aðstöðu fyrir áætlunarakstur með flugfarþega

airportexpress

Samið verður til fimm ára við tvo aðila um reglulegar ferðir milli Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og höfuðborgarsvæðisins. Samið verður til fimm ára við tvo aðila um reglulegar ferðir milli Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og höfuðborgarsvæðisins.
Í dag keyra rútur á vegum Airport Express og Flugrútunnar reglulega með flugfarþega milli höfuðborgarinnar og Keflavíkurflugvallar. Rútur fyrirtækjanna tveggja keyra upp að innritunarsalnum með þá sem eru á leið úr landi og komufarþegar ganga að bílunum vísum rétt við útgang Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar.
Nú stendur til að bjóða út þessa aðstöðu við flugstöðvarbygginguna á ný og samið verður við að hámarki tvo aðila sem um leið skuldbinda sig til að bjóða upp á sætaferðir í tengslum við öll millilandaflug hvenær sem er sólarhringsins.
Í kynningu á útboðinu, á vef Ríkiskaupa, segir að þó samið verði við tvo aðila þá sé heimilt fyrir nokkur fyrirtæki að sameinast um tilboð til að mæta hæfniskröfum um fjölda bifreiða eða reynslu af sambærilegum verkefnum.

Flestir á sunnudögum

Samningurinn gildir í fimm ár með möguleika á framlengingu í tvö ár til viðbótar og á akstur að hefjast samkvæmt þessum nýja fyrirkomulega þann 1. mars á næsta ári samkvæmt útboðslýsingunni. Á samningstímanum er búist við að farþegafjöldinn á Keflavíkurflugvelli farið úr 5,6 milljónum upp í 8,3 milljónir. Í dag er mesta álagið á sumrin og sunnudagar eru þeir dagar vikunnar þar sem flestir farþega eiga leið til og frá Keflavíkurflugvelli samkvæmt útboðskynningunni. Þar segir jafnframt að til standi að hefja gjaldtöku á öllum rútustæðum á flugstöðvarsvæðinu, líka þeim sem eru fjær byggingunni.

Styr um sérleyfi 

Fyrir fjórum árum síðan bauð Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum út einkaleyfi á akstri frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar og höfuðborgarsvæðisins og átti sérleyfishafinn að fá afnot að eina rútustæðinu við flugstöðvarbygginguna. Samkeppniseftirlitið lagðist hins vegar gegn því að aðeins einum aðila yrði veitt leyfi til að sjá um áætlunarferðirnar en þá hafði staðið töluverður styr um útboðið. Á meðan stóð einkastæðið við flugstöðina autt og flugfarþegar sem nýttu sér rútuferðir til og frá flugvellinum þurftu að ganga yfir skammtímastæðin til að komast um borð í bílana. Það olli töluverðri óánægju og sérstaklega yfir vetrarmánuðina.