Metár í komum skemmiferðaskipa

faxafloahafnir Filippus Johannsson Rotterdam

155 farþegaskip hafa boðað komu sína til höfuðborgarinnar í sumar og hafa þau aldrei verið fleiri. 155 farþegaskip hafa boðað komu sína til höfuðborgarinnar í sumar og hafa þau aldrei verið fleiri.
Þann fjórtánda þessa mánaðar leggst skemmtiferðaskipið Celebrity Eclipse að bryggju í Sundahöfn með hátt í þrjú þúsund farþega og þar með hefst fimm mánaða sumarvertíð skemmtiferðaskipa hjá Faxaflóahöfnum. Von er á 155 skipakomum á tímabilinu sem er töluverð viðbót frá metárinu í fyrra þegar komurnar voru 113 talsins. Þá komu 99 þúsund farþegar með skipunum en í ár er búist við 129 þúsund farþegum. Til samanburðar geri áætlun Isavia ráð fyrir að hingað komi rúmlega 2,2 milljónir ferðamanna í flugi í ár. 

Hámarkið 5 til 6 þúsund farþegar á dag

Erna Kristjánsdóttir, markaðsstjóri hjá Faxaflóahöfnum, segir að ekki sé von á að listinn yfir skipakomur lengist úr þessu. „Yfirleitt bóka skipin sig með eins til þriggja ára fyrirvara, þannig að það eru mjög litlar líkur á að það bætist við. Frekar að einhver detti út, það fer allt eftir því hvernig sjófærð er.“ Að sögn Ernu hefur hingað til ekki komið til þess að vísa hafi þurft skipum frá vegna plássleysis en ætíð sé miðað við að á hverjum degi komi ekki fleiri en 5 til 6 þúsund farþegar svo að innviðir ráði við fjöldann.
Flest verða skipin þann 31. ágúst þegar von er á fimm fleyjum en alla jafna stoppa þau stutt, koma að morgni en halda úr höfn um kvöld. Í ár munu tvö skemmtiferðaskip halda til Akraness og er það í fyrsta skipti sem bærinn tekur á móti þess háttar skipum.

Flestir koma frá Þýskalandi

Í hópi ferðamanna hér á landi eru Bandaríkjamenn langfjölmennastir en Þjóðverjar hafa hins vegar verið stærsti hópurinn sem kemur sjóleiðina til höfuðborgarinnar samkvæmt talningum Faxaflóahafna. Í fyrra var tæpur þriðjungur allra farþeganna frá Þýskalandi en um fimmtungur frá Bandaríkjunum eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan.