Mögulega fartölvubann í Evrópuflugi fyrir mánaðarmót

flugvel john cobb

Evrópusambandið hefur farið fram á tafarlausar viðræður við bandarísk stjórnvöld vegna áforma um að fartölvubannið muni innan skamms ná til evrópskra flugvalla einnig. Evrópusambandið hefur farið fram á tafarlausar viðræður við bandarísk stjórnvöld vegna áforma þeirra um að setja fartölvubann á flug frá Evrópu til Bandaríkjanna.
Fartölvur og stærri raftæki voru bönnuð í flugi til Bandaríkjanna frá tíu flugvöllum í Miðausturlöndum og Afríku í mars síðastliðnum. Þess háttar bann gæti brátt einnig náð til evrópskra flughafna og munu forsvarsmenn stærstu flugfélaga Bandaríkjanna hafa fundað með fulltrúum heimavarnarráðuneytisins í Washington í gær vegna málsins. Í frétt bresku ferðasíðunnar Travelmole segir að Evrópusambandið hafi farið fram á viðræður við bandarísk stjórnvöld vegna málsins þegar í stað. Nafnlausar heimildir síðunnar herma að hugsanlega verði bannið sett á í Evrópu innan hálfs mánaðar og undirbúningur að því hefjist jafnvel strax í næstu viku. Í frétt Reuters segir að forsvarsmenn stærstu flugfélaga Evrópu hafi um skeið  búið sig undir breyttar reglur hvað varðar raftæki í farþegarýmum. 
Ótti við að hægt sé að koma fyrir sprengjubúnaði í stærri raftækjum er ástæða þess að fartölvubannið var sett á í mars og í kjölfarið settu bresk flugmálayfirvöld sambærilegar reglur hvað varðar flug til landsins frá Tyrklandi, Miðausturlöndum og N-Afríku. 

Mun valda ringulreið á flugvöllum

Sem fyrr segir nær núverandi raftækjabann aðeins til flugferða frá 10 flugvöllum í Miðausturlöndum og Afríku til Bandaríkjanna og því möguleiki að útvíkkun bannsins til Evrópu þýði að það nái til nokkurra flughafna í álfunni en ekki allra. Í frétt Independent um málið segir að ljóst sé að ef af verður þá mun álag á öryggisstarfsfólk á flugvöllum aukast verulega því það þurfi að aðgreina handfarangur farþega á leið til Bandaríkjanna frá farangri annara til að ganga úr skugga um að engar fartölvur eða stærri raftæki séu með í för.
Um fimmta hver farþegaþota sem flýgur frá Keflavíkurflugvelli tekur stefnuna á Bandaríkin samkvæmt talningum Túrista en Bandaríkjamenn eru langfjölmennastir í hópi ferðamanna hér á landi eða 23 prósent.