Reiknar ekki með að margir kaupi Íslands­ferðir 2018

Island seljalandsfoss taylor leopold

Forsvars­menn ferða­skrif­stof­unnar Studi­osus ætla að bjóða upp á ferðir hingað til lands á næsta ári líkt og undan­farna áratugi. Þeir búast hins vegar við að verðið fæli fólk frá.
Forsvars­menn ferða­skrif­stof­unnar Studi­osus ætla að bjóða upp á ferðir hingað til lands á næsta ári líkt og undan­farna áratugi. Þeir búast hins vegar við að verðið fæli fólk frá og það er nú þegar orðin raunin hjá bresku ferða­skrif­stof­unni Discover the World.
Ferða­skipu­leggj­endur eru víða að leggja loka­hönd á sölu­bæk­linga fyrir næsta ár og einn af þeim er Manfred Schreiber hjá ferða­skrif­stof­unni Studi­osus í Þýskalandi. En Ísland er einn þeirra 120 áfanga­staða sem þessi stóra ferða­skrif­stofa býður upp á hópferðir til. Á því verður engin breyting þrátt fyrir að mikil styrking krónu og boðuð tvöföldun virð­is­auka­skatts geri verð­lagn­ingu á Íslands­ferðum erfiða enda miklar verð­hækk­anir fyrir­sjá­an­legar. „Við munum ekki taka Ísland út. Við erum hins vegar langt komin með skipu­lagn­ingu ferða næsta árs og munum örugg­lega skera tölu­vert niður á Íslandi því við reiknum ekki með að margir muni kaupa ferðir þangað,” segir Schreiber og vísar til þess hversu dýr áfanga­staður Ísland er orðinn.
Studi­osus hefur boðið ferðir til Íslands frá því á áttunda áratugnum og segir Schreiber að árlega komi hingað til lands um þrjú þúsund manns á þeirra vegum. Þessir þýskur ferða­menn dvelja að jafnaði í 11 nætur á landinu og standa því undir rúmlega 30 þúsund gistinóttum á ári. Það eru álíka margar gist­ingar og allir ferða­menn frá Rússlandi og Eystr­ar­saltslönd­unum keyptu saman­lagt hér á landi á síðasta ári.

Fram­tíð­ar­stefnan verður að koma frá póli­tík­usum

Schreiber var harð­orður í garð íslenskra stjórn­valda í viðtali við Túrista í apríl og sagði engu líkara en að ráða­menn vildu ganga að ferða­þjón­ust­unni dauðri með auknum álögum. “Vanda­málið er að sjón­deild­ar­hringur sumra stjórn­mála­manna virðist ekki ná lengra en til Vest­manna­eyja. Þeir horfa ekki til annarra markaða og skilja ekki að svona aðgerðir draga úr eftir­spurn. En svo lengi sem Kínverjar og Banda­ríkja­menn halda áfram að fjöl­menna til landsins þá finna stjörn­völd ekki fyrir afleið­ing­unum. Ég er þó viss um að meira segja þessar þjóðir hafi sín takmörk,” sagði Schreiber aðspurður um umræður á Íslandi um tvöföldun virð­is­auka­skatts, komu­gjöld og gistinátta­skatt.
Hann hefur áhyggjur af gangi mála hér á landi og hefur talað fyrir því að sett verði á lagg­irnar ráðgjafa­nefnd sem í eiga sæti erlendir og íslenskri sérfræð­ingar sem geti komið að mótun fram­tíð­ar­skipu­lags íslenskrar ferða­þjón­ustu. „Í dag ríkir nefni­lega stjórn­leysi í grein­inni. Sem dæmi um það þá bjóðast núna lægri farþega­gjöld á Kefla­vík­ur­flug­velli og hafn­irnar veita skemmti­ferða­skip­unum líka betri kjör. Það vantar stefnu til fram­tíðar og stjórn­mála­fólkið verður að eiga frum­kvæði að henni, hvernig sér það ferða­þjón­ustuna fyrir sér eftir 5 ár eða 10? Við verðum að fá svar við þeirri spurn­ingu.“

30% verð­hækkun frá því í fyrra

Breska ferða­skrif­stofan Discover the World hefur líka áratuga reynslu af skipu­lagn­ingu Íslands­ferða og Clive Stacey, stofn­andi og fram­kvæmda­stjóri, segir verð­hækk­an­irnar á Íslandi kalla á breyt­ingar. „Við munum einbeita okkur að sérsniðnum ferðum í stað hópferða og það mun vænt­an­lega leiða til þess að dval­ar­tíminn viðskipta­vina okkar styttist en það er þó ekki öruggt. Við finnum líka fyrir því að það er erfiðara að selja ferð­irnar nú í sumar. Við urðum til að mynda nýverið að aflýsa 8 daga göngu­ferð um Aust­ur­land þar sem eftir­spurnin var ekki næg til að standa undir kostnaði. Þetta kemur reyndar ekki á óvart því ferðin kostaði þrjú þúsund pund (395 þúsund kr.) sem er um 30 prósent hærra verð en í fyrra. Fyrir sama verð getum við boðið upp á tveggja vikna hreyfi­ferð um Nýja-Sjáland.”

Breskir skóla­hópar horfa annað

Stór hluti viðskipta­vina Discover the World eru breskir skóla­hópar og segir Stacey að í dag sé salan á þess háttar ferðum álíka og á síðasta ári. „Ferða­ráð­gjafar okkar leggja hart að sér að útbúa Íslands­ferðir sem eru innan þeirra kostn­að­ar­marka sem skól­arnir setja. Við sjáum hins vegar að núna er engin aukning í sölu á þessum ferðum öfugt við það sem hefur verið síðast­liðinn áratug. Skóla­hóp­arnir fara því auknum mæli í ferðir okkar til Ítalíu og Noregs.“
TENGDAR GREINAR: Hefð­bundið gistinátta­gjald skilar álíka og hátt komu­gjald