Kristinn er til í Soðboð í Brussel

kristinn sod

Flæmingja aspas, stúmp eða bláskel í belgísku öli verður vafalítið miklu oftar á boðstólum á íslenskum heimilum hér eftir þökk sé Soði Brusselbúans Kristins Guðmundssonar. Flæmingja aspas, stúmp eða bláskel í belgísku öli verður vafalítið miklu oftar á boðstólum á íslenskum heimilum hér eftir þökk sé Soði Brusselbúans Kristins Guðmundssonar. Í þessum skemmtilegu og frumlegu matreiðsluþáttum kennir Kristinn áhorfendum hvernig á að matreiða hefðbundna belgíska rétti en hann tekur líka snúning á klassískum smellum. Og það er ekki annað að sjá en að Kristinn sakni einskis úr íslenska eldhúsinu nema kannski stöku orða yfir áhöld og hráefni. Túristi spurði Youtube-kokkinn út í þættina, Brussel og áhuga hans á að bjóða íslenskum sælkerum í heimsókn. 
Hvernig varð Soð til?
Soð kom aðallega til vegna stress yfir því að ég hefði ekkert að gera í sumarfríinu. Ég og kærastan ætlum til Íslands og búa í sumarbústað stóran part sumarsins og ég er ekki maður sem liggur bara og gerir ekki neitt. Áttaði mig á því seinasta sumar að ég var með eitthvert „passion“ fyrir því að elda utandyra og kannski sýniþörf líka þannig þetta small einhvernv eginn allt saman og úr varð einhver Suða af mér að elda upp í vinnustofunni minni.

Þú eldar töluvert af belgískum réttum en er matarmenning Belga ekki Íslendingum frekar framandi?
Jú, ég myndi halda að þekking Íslendinga á belgískri matargerð sé lítil sem engin, þó auðvitað séu undartekningar þar á. Ég þurfti náttúrulega að búa mér til einhvurslags ramma utan þættina og þá lá það bara beinustu leið að elda belgískt, enda búinn að vera vinna í belgísku eldhúsi í frekar langan tíma.

Belgískur bjór kemur líka við sögu. Er hann mikilvægur hluti af eldamennskunni?
Belgískur bjór er stór partur af belgískri matargerð, kemur oft fyrir, enda alveg einstakt hráefni og alveg hrikalega skemmtilegt. Mér fannst það vanta einhvern veginn í íslenska matarmenningu að fólk fari að nota þetta hráefni í eldun, enda vanari að nota rauðvín. En hvað veit ég samt, ég er búinn að búa erlendis í 11 ár, þetta er bara svona mín tilfinning.

Þú hefur gert töluvert af því að ganga um Brussel með íslenska ferðamenn. Hvað kemur landanum mest á óvart í borginni?
Já, ég var að ganga með henni Tinnu Ottesen, Gengið í Brussel, og það hefur verið alveg ótrúlega skemmtilegt ævintýri. Það sem kemur Íslendingum mest á óvart er hversu skemmtileg þessi borg er, því fólk hugsar um einhverjar moldvörpur haldandi á skjalatöskum hlaupandi um borgina. Brussel hefur alveg æðislega sögu og er alveg mega skemmtileg, þó það séu nú nokkrar moldvörpur með skjalatöskur hérna en þá eru þær oft mjög ungar og hressar týpur.

Kemur til greina að bjóða upp á matarferðir um Brussel og jafnvel í stúdíóið?
Ég hef verið að hugsa hvernig væri hægt að blanda saman Soð og göngutúrum. Mig langar nefnilega að bjóða fólki hingað heim, í stúdíóið, að fá sér kvöldverð þar sem hægt væri að tala um sögu Belgíu ásamt því að snæða góðan kvöldverð og drekka vel útvalda bjóra með matnum. Borðstofuborðið mitt tekur um 12 manns í sæti, þannig nóg er plássið. Endilega finnið Soð á Facebook og sendið mér skilaboð og sjáið hvort ég sé laus fyrir hópinn ykkar.

Ein í lokin, þú ert oft kappklæddur í þáttunum. Er kalt í Soð-stúdíóinu?

Ég tók fyrstu þættina upp í janúar og það er engin kynding í vinnustofunni þannig að þá er það bara lopinn, húfan og hitinn frá gashellunni. En nú er allt að fara í hina áttina og. það fer að verða of heitt upp í vinnustofu. Það þykir mér ekki gott enda betra að klæða af sér kuldan en að vera hálfnakinn að vinna með sagir, slípirokk og sjóðheitar pönnur.
Á Facebook síðu Soðs má finna nánari upplýsingar um prógrammið en allir þættirnir eru svo á Youtube en á fimmtudögum bætist við nýr þáttur. Hér fyrir eldar Kristinn stúmp.

Til Brussel fljúga bæði Icelandair og WOW og framboð á ferðum þangað fyrir áhugasama um belgíska matargerð og Soð er því mikið.