Bílaleigubílar við Keflavíkurflugvöll hríðlækka í verði þrátt fyrir sterkari krónu

Hálfs mánaðarleiga á ódýrasta bílaleigubílnum við Flugstöð Leifs Eiríkssonar kostar í dag rúmlega 50 þúsund krónum minna en á sama tíma fyrir þremur árum síðan. Íslenskir túristar í Evrópureisu borga miklu minna í dag fyrir bílana við flugvellina í Barcelona, Alicante, Kaupmannahöfn og víðar.

island vegur ferdinand stohr

Ferðamaður á leið til Íslands síðustu tvær vikurnar í júní, júlí eða ágúst borgar að jafnaði tæpar 82 þúsund krónur fyrir ódýrasta bílaleigubílinn við Keflavíkurflugvöll ef gengið er frá bókun í dag. Lægsta meðalverðið var hins vegar rúmlega 135 þúsund krónur á sama tíma fyrir þremur árum síðan. Verðlækkunin nemur um 40 af hundraði milli þessara tveggja verðkannana Túrista sem framkvæmdar voru 4. júní 2014 og aftur í dag. Á sama tíma hefur íslenska krónan styrkst um 28 prósent gagnvart evru en sú breyting endurspeglast ekki í leiguverðinu því í evrum talið þá hefur ódýrasta tveggja leigan á bílaleigubíl við Keflavíkurflugvöll lækkað um nærri 130 evrur milli kannana. Hækkun á gengi krónunnar er aftur á móti helsta ástæða þess að Ísland er orðið mun dýrara heim að sækja til að mynda þegar kemur að gistingu, afþreyingu og fæði.
Leitarvél Rentalcars.com er sem fyrr notuð í þessum athugunum Túrista til að finna ódýrasta bílaleigubílinn við hverja flugstöð fyrir sig og alltaf er ótakmarkaður akstur og kaskótrygging innifalin í leiguverðinu.

Líka verðlækkanir hjá stærstu leigunum

Síðustu sumur hafa verðskrár bílaleiganna við Keflavíkurflugvöll verið nokkru hærri en við aðrar evrópskar flughafnir en í úttekt Túrista í lok mars sl. síðan kom í ljós að verðið hafði lækkað töluvert hér á landi milli ára og það hefur lækkað áfram síðustu tvo mánuði. Þessi verðlækkun nær ekki aðeins til leitarvélar Rentalcars.com heldur líka til stærstu bílaleiganna. Í dag kostar til að mynda bíll af minnstu gerð hjá Hertz, seinni tvær vikurnar í júlí, 112.600 kr. en hann var á 203 þúsund krónur fyrra samkvæmt könnun Túrista í lok mars 2016. Hjá Avis hefur ódýrasti bíllinn lækkað úr 220 þúsund niður í 133.601 kr. á sama tíma.
Aukið framboð á bílaleigubílum og meiri samkeppni en áður eru líklegustu skýringarnar á þessum miklu breytingum því ferðamönnum hefur fjölgað verulega á þessu sama tímabili.

Miklu ódýrara fyrir íslenska túrista

Það eru þó ekki bara erlendir ferðamenn á Íslandi sem borga í dag minna fyrir bílaleigubíla en áður. Í krónum talið hefur nefnilega leiguverðið lækkað umtalsvert við þá evrópsku flugvelli sem Íslendingar venja komur sínar til ein sog sjá má á grafinu hér fyrir neðan. Í Kaupmannahöfn og Barcelona er verðið á ódýrasta bílnum í dag um þriðjungur af því sem þar var í sumarbyrjun 2014 og í Alicante hefur leigan lækkað ennþá meira. En þess má geta að sá sem bókar litla bifreið í Alicante, seinni hlutann í júní, fær hana fyrir 5 þúsund krónur allan tímann. Það er álíka mikið og borga þarf á dag fyrir ódýrasta bílinn við Keflavíkurflugvöll á sama tíma.