British Airways tvöfaldar Íslandsflug sitt frá London

Kínverskir ferðamenn eru stærsti farþegahópurinn í þotum breska flugfélagsins sem munu fljúga hingað tvisvar á dag frá Heathrow á næsta ári. Þar með bjóðast ríflega 11 ferðir á dag til höfuðborgar Bretlands frá Keflavíkurflugvelli.

british airways

Haustið 2015 hóf British Airways aftur að bjóða upp á áætlunarferðir til Íslands. Þá voru á boðstólum þrjár ferðir í viku en síðastliðinn vetur var flugið starfrækt allt að daglega. Forsvarsmenn British Airways sjá hins vegar tækifæri í auknu Íslandsflugi og munu þotur British Airways því fljúga til Íslands tvisvar á dag allan næsta vetur. Brottfarirnar frá Keflavíkurflugvelli verða á dagskrá í hádeginu og aftur um kaffileytið.
Samkvæmt upplýsingum Túrista frá British Airways hafa kínverskir ferðamenn verið fjölmennasti farþegahópurinn í Íslandsflugi British Airways frá London Heathrow en einnig hefur flugið verið vinsælt meðal Breta. Íslenskir farþegar á leið til Asíu hafa líka verið duglegir að nýta sér flugið samkvæmt svari frá breska félaginu en þar segir að með því að auka umferðina til Íslands í vetur þá bæti BA sérstaklega þjónustuna við viðskiptaferðalanga en fyrir þann hóp sé mikilvægt að hafa úr fleiri ferðum að moða. Samkvæmt heimasíðu British Airways kosta ódýrustu farmiðar félagsins til London 4.640 krónur en þeir miðar eru án farangursheimildar.

79 flugferðir til London í viku

Þessi viðbót í Lundúnarflugið frá Íslandi næsta vetur er líka áhugaverð í því ljósi að í síðasta mánuði fækkaði breskum ferðamönnum á Íslandi um 28% en Bretar hafa verið næst fjölmennastir í hópi ferðamanna á Íslandi síðustu tvö ár. Þeir koma þó hingað aðallega yfir vetrarmánuðina en þá fjölgar til að mynda easyJet ferðunum til Íslands frá þeim sjö breskum flugvöllum sem félagið flýgur frá til Íslands. En eins og kom fram í frétt Túrista þá gerir flugáætlun breska lággjaldaflugfélagsins ráð fyrir nærri fimmtungs aukningu í umsvifum þess hér á landi.
Með tilkomu aukaferðar British Airways til Íslands þá verður flogið allt að 79 ferðir í viku milli Íslands og Lundúna næsta vetur eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan.