Færri hótelgistingar útlendinga í höfuðborginni, á Vesturlandi og Vestfjörðum

Þó gistinóttum erlendra ferðamanna hafi fjölgað á landsvísu þá eru breytingarnar ólíkar milli landshluta.

reykjavik Tim Wright

Þó gistinóttum erlendra ferðamanna hafi fjölgað á landsvísu þá eru breytingarnar ólíkar milli landshluta. Í maí fjölgaði gistinóttum útlendinga á íslenskum hótelum um sex prósent en aukningin í maí í fyrra og hittifyrra nam um 31 prósenti. Viðbótin núna er því töluvert minni og á tveimur svæðum fækkaði gistinóttunum því á Vesturlandi og Vestfjörðum keyptu útlendingar um þúsund færri hótelnætur í maí í samanburði við sama tíma í fyrra. Í höfuðborginni fækkaði gistinóttum útlendinga um 2.329. Hlutfallslega nemur minnkunin á vestanverðu landinu um 9 prósentum en 1,4% í Reykjavík og nágrenni.
Erlendum hótelgestum á Suðurnesum og á Norðurlandi umtalsvert eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan sem byggir á tölum Hagstofunnar.

Í maí voru erlendir ferðamenn hér á landi nærri fimmtungi fleiri en á sama tíma í fyrra samkvæmt talningu Ferðamálastofu á Keflavíkurflugvelli. Gistinóttum útlendinga á hótelum hér á landi fjölgaði hins vegar mun minna eða um 6 prósent líkt og fyrr segir. Í maí í fyrra og hittifyrra voru hlutfallslegar breytingar á þessum tveimur lykilstærðum í ferðaþjónustu mjög sambærilegar því þá fjölgaði erlendum ferðamönnum um rúm 36 prósent, bæði árin, og vöxturinn á íslenskum hótelum var sambærilegur. Það er hins vegar ekki raunin í maí í ár eins og súluritið hér fyrir neðan sýnir. Aukin ásókn í aðra gistikosti en hótel gæti verið skýringin en tölur Hagstofunnar byggja aðeins á upplýsingum frá hótelum.