Hægt að innrita sig alla nóttina á Keflavíkurflugvelli

kef innritun

Farþegum gefst nú kostur á að tékka sig inn í morgunflug mun fyrr en ella. Um er að ræða tilraunaverkefni. Farþegum gefst nú kostur á að tékka sig inn í morgunflug mun fyrr en ella. Um er að ræða tilraunaverkefni. Ný veitingastaður opnnar í flugstöðinni síðar í mánuðinum.
Í nótt sem leið voru innritunarborðin í Flugstöð Leifs Eiríkssonar opin frá miðnætti fyrir þá farþega Icelandair, WOW og Primera Air sem voru á leið í morgunflug. Sami háttur verður hafður á allar nætur júnímánaðar en um tilraun er að ræða til að draga úr biðröðum í morgunsárið. En jafnan eru hundruðir farþega mættir við innritunarborðin þegar þau opna og veldur það álagi fyrstu tíma dagsins samkvæmt því sem segir í tilkynningu frá Isavia. 
Fyrst um sinn er þessi næturinnritun einungis fyrir farþega þessara þriggja flugfélaga en langflestar ferðir í morgunsárið er einmitt á vegum Icelandair og WOW. Í dag voru til að mynda 27 brottfarir á dagskrá milli klukkan 6 og 8 og allar voru þær á vegum Icelandair og WOW air að jómfrúarferð Air Iceland Connect til Belfast undanskilinni.

Fyrsti „Pop-up“ staðurinn

Veitingastaðurinn Sbarro, sem meðal annars hefur útibú í Kringlunni og Smáralind, hefur verið valinn í tímabundið veitingarými sem sett verður upp í suðurbyggingu Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar í sumar. Þetta er í fyrsta sinn sem Isavia auglýsir eftir aðilum í tímabundið rými en fyrirkomulagið er þekkt á flugvöllum erlendis.
Fjórtán umsóknir bárust og fengu fimm þeirra tækifæri til að skila inn frekari gögnum fyrir valnefnd sem í sátu einn fulltrúi frá Isavia og tveir utanaðkomandi aðilar. Eftir nánari kynningu á fyrirkomulagi bárust upplýsingar frá tveimur áhugasömum aðilum. Við mat á gögnunum var tekið tillit til þeirra viðmiða sem sett voru fram í auglýsingu og þá sérstaklega hvað varðar þjónustu við þá farþega sem einungis millilenda hér á landi á leið sinni milli heimsálfa. Var til að mynda horft til þess að mikilvægt væri að veitingasöluaðilinn bæri fram veitingar sem neytendur þekkja og að afgreiðsla vörunnar væri bæði hröð og einföld. Valnefnd þótti Sbarro líklegasti aðilinn til að skila sem bestum árangri að teknu tilliti til fyrrgreindra viðmiða.
Næsta vor tekur svo nýr rekstraraðili við rýminu en umsóknarfrestur fyrir það tímabil rennur út 15. júní.