Leigubíll út á flugvöll mun dýrari hér á landi

Keflavíkurflugvöllur er álíka langt frá Reykjavík og flugvellirnir í Stokkhólmi og Ósló eru frá miðborgum. Flugfarþegar í norrænu höfuðborgunum borga þó nokkru minna fyrir skutlið út á völl en þekkist hjá íslensku leigubílastöðvunum.

taxi peter kasprzyk

Það er álíka langt út á flugvöll frá miðborgum Stokkhólms og Óslóar en þar borga farþegarnir nokkru minna fyrir skutlið en íslensku leigubílastöðvarnar rukka. Ferðamaður sem tekur leigubíl frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar að hóteli í miðborg Reykjavíkur borgar 14.500 krónur hjá BSR fyrir farið en 16 þúsund kr. hjá Hreyfli. Vegalengdin er um 50 kílómetrar sem er álíka og keyra þarf frá miðborgar Óslóar og að flugstöðinni við Gardermoen. Milli Stokkhólms og Arlanda er leiðin 5 kílómetrum styttri en þrátt fyrir þann litla mun þá rukkar sænski leigubílstjórinn miklu minna en sá íslenski eða 5.400 til 6.000 krónur fyrir bílferðina. Ef ferðalagið hefst við Arlanda flugstöðina þá bætist við aukaálag upp á 350 til 600 krónur.
Verðskrá norskra leigubílastöðva er svo mitt á milli þess sem þekkist hér á landi og í Svíþjóð því borga þarf 8 til 9 þúsund krónur fyrir að sitja í norskum leigubíl milli Óslóar og á Gardermoen. Þar hækkar gjaldið um 2 til 3 þúsund krónur á kvöldin og á nóttunni en hér á landi er sama verð allan sólarhringinn líkt og í Svíþjóð.

Tvöfalt dýrara þó notast sé við hagstæðara gengi

Aðspurður um þennan mikla verðmun bendir Vignir Þröstur Hjálmarsson, hjá Hreyfli, á að verðsamanburður sé háður gengi og um þessar mundir er íslenska krónan mjög sterk. „Þrátt fyrir gengisbreytingar hefur verðlag hér lítið breyst en taxtar á Íslandi taka óhjákvæmilega mið af verðlagi innanlands en ekki í útlöndum. Það sem var ódýrara hér á landi fyrir nokkru síðan er því orðið dýrara ef viðmiðið er erlent.“
En jafnvel þó miðað sé við meðalgengi krónunnar árið 2015 þá er flugvallarskutlið frá Ósló samt sem áður ódýrara en farið með Hreyfli út á Leifsstöð eða 12.500 á daginn og 15.700 á kvöldin. Og leigubíll frá Stokkhólmi til Arlanda flugvallar kostar um 8 þúsund krónur miðað við gengi krónunnar í hittifyrra. Það er helmingi minna en borga þarf fyrir bíl hjá Hreyfli en munurinn er aðeins minna ef miðað er við verðskrá BSR.

Mikilvægt að panta rétt

Túristi fékk nýverið senda kvittun frá Svía sem var á Íslandi í sumarbyrjun en sá þurfti að greiða 18 þúsund krónur fyrir far með Hreyfli frá hóteli við Suðurlandsbraut og út á Keflavíkurflugvöll. Það er 2 þúsund krónum meira en verðskrá leigubílastöðvarinnar segir til um. Um þennan mismun segir Vignir Þröstur að almennt gildi að leigubílar „séu á mæli“ ef þeir eru ekki pantaðir á stöð og líklega hafi umræddur ferðamaður farið í röðina við hótelið. „Einnig er nokkuð um að beðið sé um bíl að hóteli og ekkert gefið upp um áfangastað en afgreiðslan verður að fá að vita að um akstur á flugstöð sé að ræða til að farið sé í að athuga hagkvæmni.“
Af svarinu að dæma þá er mikilvægt að erlendir ferðamenn biðji hótelstarfsmenn um að panta sérstaklega fyrir sig leigubíl í stað þess að bíða fyrir utan hótel eftir lausum bíl. Einnig er mikilvægt að tekið sé fram við bókun að farþeginn sé á leið út á Keflavíkurflugvöll. Annars gæti viðkomandi þurft að borga aukalega líkt og í tilfelli sænska ferðamannsins.