Leigu­bíll út á flug­völl mun dýrari hér á landi

Keflavíkurflugvöllur er álíka langt frá Reykjavík og flugvellirnir í Stokkhólmi og Ósló eru frá miðborgum. Flugfarþegar í norrænu höfuðborgunum borga þó nokkru minna fyrir skutlið út á völl en þekkist hjá íslensku leigubílastöðvunum.

taxi peter kasprzyk

Það er álíka langt út á flug­völl frá miðborgum Stokk­hólms og Óslóar en þar borga farþeg­arnir nokkru minna fyrir skutlið en íslensku leigu­bíla­stöðv­arnar rukka. Ferða­maður sem tekur leigubíl frá Flug­stöð Leifs Eiríks­sonar að hóteli í miðborg Reykja­víkur borgar 14.500 krónur hjá BSR fyrir farið en 16 þúsund kr. hjá Hreyfli. Vega­lengdin er um 50 kíló­metrar sem er álíka og keyra þarf frá miðborgar Óslóar og að flug­stöð­inni við Gardermoen. Milli Stokk­hólms og Arlanda er leiðin 5 kíló­metrum styttri en þrátt fyrir þann litla mun þá rukkar sænski leigu­bíl­stjórinn miklu minna en sá íslenski eða 5.400 til 6.000 krónur fyrir bílferðina. Ef ferða­lagið hefst við Arlanda flug­stöðina þá bætist við auka­álag upp á 350 til 600 krónur.
Verð­skrá norskra leigu­bíla­stöðva er svo mitt á milli þess sem þekkist hér á landi og í Svíþjóð því borga þarf 8 til 9 þúsund krónur fyrir að sitja í norskum leigubíl milli Óslóar og á Gardermoen. Þar hækkar gjaldið um 2 til 3 þúsund krónur á kvöldin og á nótt­unni en hér á landi er sama verð allan sólar­hringinn líkt og í Svíþjóð.

Tvöfalt dýrara þó notast sé við hagstæðara gengi

Aðspurður um þennan mikla verðmun bendir Vignir Þröstur Hjálm­arsson, hjá Hreyfli, á að verð­sam­an­burður sé háður gengi og um þessar mundir er íslenska krónan mjög sterk. „Þrátt fyrir geng­is­breyt­ingar hefur verðlag hér lítið breyst en taxtar á Íslandi taka óhjá­kvæmi­lega mið af verð­lagi innan­lands en ekki í útlöndum. Það sem var ódýrara hér á landi fyrir nokkru síðan er því orðið dýrara ef viðmiðið er erlent.”
En jafnvel þó miðað sé við meðal­gengi krón­unnar árið 2015 þá er flug­vall­ar­skutlið frá Ósló samt sem áður ódýrara en farið með Hreyfli út á Leifs­stöð eða 12.500 á daginn og 15.700 á kvöldin. Og leigu­bíll frá Stokk­hólmi til Arlanda flug­vallar kostar um 8 þúsund krónur miðað við gengi krón­unnar í hittifyrra. Það er helm­ingi minna en borga þarf fyrir bíl hjá Hreyfli en munurinn er aðeins minna ef miðað er við verð­skrá BSR.

Mikil­vægt að panta rétt

Túristi fékk nýverið senda kvittun frá Svía sem var á Íslandi í sumar­byrjun en sá þurfti að greiða 18 þúsund krónur fyrir far með Hreyfli frá hóteli við Suður­lands­braut og út á Kefla­vík­ur­flug­völl. Það er 2 þúsund krónum meira en verð­skrá leigu­bíla­stöðv­ar­innar segir til um. Um þennan mismun segir Vignir Þröstur að almennt gildi að leigu­bílar „séu á mæli” ef þeir eru ekki pant­aðir á stöð og líklega hafi umræddur ferða­maður farið í röðina við hótelið. „Einnig er nokkuð um að beðið sé um bíl að hóteli og ekkert gefið upp um áfanga­stað en afgreiðslan verður að fá að vita að um akstur á flug­stöð sé að ræða til að farið sé í að athuga hagkvæmni.”
Af svarinu að dæma þá er mikil­vægt að erlendir ferða­menn biðji hótel­starfs­menn um að panta sérstak­lega fyrir sig leigubíl í stað þess að bíða fyrir utan hótel eftir lausum bíl. Einnig er mikil­vægt að tekið sé fram við bókun að farþeginn sé á leið út á Kefla­vík­ur­flug­völl. Annars gæti viðkom­andi þurft að borga auka­lega líkt og í tilfelli sænska ferða­mannsins.