Minnsta fjölgun ferðamanna í nærri þrjú ár

Fyrstu fjóra mánuði ársins fjölgaði ferðamönnum um meira en helming en aukningin í maí var mun minni og lægri en spár gerðu ráð fyrir.

erlendir ferdamenn

Fyrstu fjóra mánuði ársins fjölgaði ferðamönnum um meira en helming en aukningin í maí var mun minni og lægri en spár gerðu ráð fyrir. Rúmlega 146 þúsund erlendir ferðamenn fóru frá landinu í maí síðastliðnum eða 22 þúsund fleiri en í maí á síðasta ári. Fjölgunin nemur 17,8 prósent milli ára samkvæmt talningum Ferðamálastofu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar sem birtar voru í gærkvöld. Aukningin í maí var hlutfallslega mun minni en fyrstu fjóra mánuði ársins þegar ferðamönnum fjölgaði að jafnaði um 55,7 prósent. Leita þarf aftur til sumarsins 2014 til að finna mánuð þar sem fjölgun ferðamanna er álíka lítil og hún var í maí í ár.
Í ferðamannaspá Isavia var gert ráð fyrir minni vexti í komum ferðamanna í maí en mánuðina á undan en spáin gerði engu að síður ráð fyrir 14 þúsund fleiri erlendum ferðamönnum en raun varð á. Samkvæmt áætlun Isavia verður hlutfallslega fjölgun ferðamanna í sumar mun minni eða á bilinu 10 til 15 prósent.

Færri Bretar

Það vekur sérstaka athygli að í maí fækkaði breskum ferðamönnum um 28 prósent en þeir hafa verið næst fjölmennastir í hópi ferðamanna hér á landi. Framboð á flugi héðan til Bretlands hefur líka verið mjög mikið og meira en til nokkurs annars lands. Ferðamönnum frá Noregi fækkaði líka milli mánaða en sem fyrr eru bandarískir ferðamenn fjölmennastir og fjölgaði þeim um rúman þriðjung.


Í upphaflegi útgáfu var sagt að spá Isavia gerði ráð fyrir 17 til 20% aukningu ferðamanna í sumar. Þær tölur eiga hins vegar um heildarfarþegafjölda en Isavia spáir 10 til 15% vexti í komum erlendra ferðamanna.