Samfélagsmiðlar

Mismunandi viðbrögð við miklum samdrætti í komum breskra ferðamanna

Talsmaður easyJet segist ekki finna fyrir minna áhuga á Íslandsflugi félagsins en reyndur breskur ferðafrömuður segir 28 prósent fækkun breskra ferðamanna hafa legið í loftinu.

Island seljalandsfoss taylor leopold

Talsmaður easyJet segist ekki finna fyrir minna áhuga á Íslandsflugi félagsins en reyndur breskur ferðafrömuður segir 28 prósent fækkun breskra ferðamanna hafa legið í loftinu. Spár um að draga myndi úr ferðagleði Breta vegna veikingar pundsins í kjölfar Brexit gengu ekki eftir í vetur. Þá fjölgaði Bretunum nefnilega töluvert þó vöxturinn hafi verið minni en árin á undan. Í síðasta mánuði komu hins vegar 4.437 færri breskir ferðamenn til Íslands miðað við maí í fyrra og nam samdrátturinn 28 prósentum. Þess háttar dýfu í komum Breta höfum við ekki séð síðan í maí árið 2010 þegar Eyjafjallajökull gaus en þá fækkaði Bretunum hér á landi um 27 prósent. Allar götur síðan hefur leiðin legið upp á við og Bretar hafa reglulega verið fjölmennastir í hópi ferðamanna á Íslandi, sérstaklega yfir vetrarmánuðina þegar allt að fjórir af hverjum tíu túristum hér á landi hafa verið breskir.

Eftirspurn eftir flugi ekki dregist saman

Breska lággjaldaflugfélagið easyJet hóf Íslandsflug í mars árið 2012 en hefur stóraukið umsvif sín hér á landi og flýgur hingað í dag frá sjö breskum flugvöllum. Næsta vetur verður félagið til að mynda umsvifamest í flugi milli Íslands og Lundúna, í flugferðum talið. Aðspurður segir Andy Cockburn, talsmaður easyJet, að fréttir af 28 prósent samdrætti í komum Breta til Íslands komi sér á óvart enda finni félagið ekki fyrir minni eftirspurn eftir ferðum til landsins. Máli sínu til stuðnings bendir Cockburn á að easyJet hafi fjölgað ferðum sínum um 19 prósent í ár.
Íslensku flugfélögin tvö eru einnig stórtæki í Bretlandsflugi en hjá báðum er fókusinn ekki aðeins á ferðir Breta til Íslands heldur flug milli N-Ameríku og Bretlandseyja með millilendingu á Íslandi. Meginþorri farþega easyJet eru aftur á móti breskir ferðamenn á leið til Íslands.

Kallar eftir skynsemi í verðlagningu

Það er annað hljóð í skrokknum hjá Clive Stacey, framkvæmdastjóra Discover the World, sem hefur áratuga reynslu af skipulagninu Íslandsferða. Hann segir að hrun í maíferðum Breta til Íslands komi ekki á óvart. „Með styrkingu krónunnar, veikingu pundsins, hækkandi verðskrám og fréttum af of mörgum ferðamönnum á Íslandi þá hlaut að koma að því að breski markaðurinn myndi sýna viðbrögð. Það eru líka vísbendingar um að þetta muni halda áfram í sumar og jafnvel lengur. Mér skilst líka að Ísland sé að verða of dýrt fyrir aðra markaði, t.d. Þjóðverja.“ Stacey er líka sem fyrr harðorður í garð stjórnvalda sem hann sakar um aðgerðaleysi. „Við eins og aðrir þeir sem hafa skipulagt Íslandsferðir í áratugi horfum nú hjálparlaus upp á landið verða undir vegna óskipulags ferðamannastraums sem stjórnvöld og lykilfólk í ferðaþjónustunni hefur lítið sem ekkert reynt að hafa áhrif á.“ Stacey segir að hjá Discover the World sé unnið að því, í samstarfi við íslenskt samstarfsfólk, að leita leiða til að laða til landsins ferðafólk sem kunni að meta Ísland sem einstakan áfangastað en ekki bara land sem það vill hafa heimsótt einu sinni á ævinni. „Við teljum að íslensk ferðaþjónusta verði að fókusa á gæði frekar en magn svo að ferðafólk njóti landsins. Heilbrigð skynsemi í verðlagningu er hins vegar forsenda fyrir því að ferðaþjónustan þroskist og verði sjálfbær,“ segir Clive og bendir á að í dag geti hann selt hálfsmánaðar ferðalag um Nýju-Sjáland fyrir minna en vikuferð til Íslands. „Sá munur boðar ekki gott.“

Ráðherrar vinna að sama atriðinu en í sitthvoru lagi

Það eru hins vegar aðgerðir í gangi á vegum stjórnvalda og í síðustu viku fékk ferðamálaráð umsvifamikið sumarverkefni frá ráðherra ferðamála. Þar er óskað eftir tillögum um aðgerðir til að koma í veg fyrir svarta atvinnustarfsemi í gistiþjónustu og stuðla að því að ferðamenn heimsæki landsbyggðina í auknum mæli þrátt fyrir styrkingu krónunnar. Einnig bað ráðherra ferðamálaráð að finni leiðir til að tryggja betur að erlendir ferðaþjónustuaðilar á Íslandi fullnægi öllum kröfum sem þeim ber, meðal annars varðandi vinnurétt, gjöld, skráningu o.þ.h. Aðeins þremur dögum áður hafði fjármálaráðherra sett á stofn eigin starfshóp til að skoða þetta síðarnefnda atriði líka. Von er á tillögum frá fagfólkinu í sumar.

Nýtt efni

Faxaflóahafnir héldu vorfund sinn fyrir helgi til að kynna fyrirtækjum í ferðaþjónustu skipulag sumarsins við móttöku skemmtiferðaskipa, sem tekur mið af því raski sem verður vegna byggingar farþegamiðstöðvar Faxaflóahafna. Þeim framkvæmdum á að ljúka að tveimur árum liðnum, eins og FF7 greindi nýverið frá. Fram kom á fundinum að gert er ráð fyrir rúmlega 308 …

Fréttaveitan Bloomberg sagði frá því á dögunum að mikil úlfúð ríkti í alþjóðlegu kolefnisvottunarsamtökunum Science Based Targets initiatives, eða SBTi.  Fyrirtæki um allar koppagrundir hafa lengi reitt sig á vottanir frá SBTi þegar þau hafa fullyrt að þau stefni að kolefnishlutleysi.  Yfirleitt er kannski lítil ástæða til þess að fólk kippi sér upp við slæman starfsanda og …

Þegar lent er á flugvelli á ESB-svæðinu bíður farþeganna ekki verslun með tollfrjálsan varning við töskubeltin. Þess háttar er aðeins í boði fyrir brottför. Í Evrópuríkjum utan ESB gefst hins vegar tækifæri til að kaupa ódýrara áfengi við komuna eins og við þekkjum frá Keflavíkurflugvelli. Þeir sem nýta tollinn sinn þar til að kaupa léttvín …

Þrjár þotur Loftleiða munu næstu misseri fljúga viðskiptavinum erlendra ferðaskrifstofa hringinn í kringum heiminn. Um borð eru sætin stærri og færri en í hefðbundnu áætlunarflugi enda kostar ferðalagið skildinginn. Hver farþegi borgar 25 milljónir fyrir ferðalag líkt og farið var yfir í fréttum Stöðvar 2.  Það er ekkert nýtt að Icelandair leigi þotu og áhöfn í …

Fyrir viku hélt Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, fund með helstu ráðgjöfum sínum, innanríkisráðherra og fulltrúum veðurstofu og almannavarna landsins til að ræða viðbrögð við hitatíðinni framundan, frá apríl til júní. Sérstaklega er talin ástæða nú til aðgæslu vegna áhrifa loftslagsbreytinga á veðurfar. Verulegar líkur eru taldar á að hiti fari fram úr venjulegum hámarkshita í …

Frumvarp um að veita þúsundum óskráðra innflytjenda á Spáni heimild til landvistar og atvinnu er nú til meðferðar í fulltrúadeild spænska þingsins (Congreso de los Diputados) eftir að 700 þúsund manns höfðu undirritað áskorun um setningu laga þessa efnis. Nærri 900 samtök studdu þessa áskorun um að breyta stöðu óskráðra útlendinga í landinu.  Ef fyrirliggjandi …

Farþegar á leið til New York frá Róm, París, Ósló, London, Berlín eða Aþenu geta flogið beint með norska lágfargjaldaflugfélaginu Norse Atlantic. Í mörgum tilfellum er félagið með ódýrustu sætin á þessum leiðum og keppir því við íslensku flugfélögin um þá farþega sem vilja komast á milli fyrir sem minnst og setja það ekki fyrir …