Burt í hvelli: Leitin að ódýrustu ferðunum úr landi

Það er þungskýjað víða um land og veðurspáin lofar ekki nógu góðu. Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að ef þú vilt komast í eitthvað betra þá kostar furðulítið að fljúga yfir á meginland Evrópu næstu daga. Sólarlandaferðir bjóðast líka á tilboði.

flug danist soh

Það er þungskýjað víða um land og veðurspáin lofar ekki nógu góðu en góðu fréttirnar eru þær að ef þú vilt komast í eitthvað betra þá kostar furðulítið að fljúga út. Það er útlit fyrir bongoblíðu í Búdapest um helgina og spáin fyrir París er álíka góð. Og til þessara beggja borga er hægt að fljúga á föstudag fyrir innan við 10 þúsund krónur. Ef þú getur hins vegar ekki beðið fram til föstudags þá er hægt að komast til London, Dusseldorf og Kaupmannahafnar á morgun fyrir innan við fimmtán þúsund. Úrvalið af ódýru flugi til Evrópu er töluvert fram yfir helgi og í sumum tilfellum þarf ekki að borga svo mikið í viðbót fyrir flug vestur um haf.
Hér má sjá hvaða flugfélög flúga hvert

Töskurnar hækka ódýrasta farið

Framboðið af þessum allra ódýrustu miðum takmarkast við lággjaldaflugfélögin en þau rukka öll aukalega fyrir innritaðan farangur. Það getur því stundum verið hagstæðara að fljúga með félögum sem bjóða þess háttar með flugsætinu ef handfarangurstaska nægir ekki. Það getur hins vegar verið snúið að finna þessa ódýru miða en leitarvélar eins og Momondo og Kiwi geta gert leitina auðveldari. Hjá Kiwi má t.d. leita eftir ódýrustu flugmiðunum á hverjum degi frá Keflavíkurflugvelli með því að velja „Anywhere“ sem áfangastað. Samkvæmt athugun Túrista eru tilboðsverðin sem þá birtast ekki öll fáanleg en Kiwi getur þó einfaldað leitina að ódýrustu flugmiðunum.
Túristi mælir með að fólk athugi líka hvað farmiðaverð er í boði hjá flugfélaginu sjálfur áður en miði er bókaður á leitarsíðum.

Sólarlandaferðir á tilboði

Ef hefðbundin sólarlandaferð hljómar betur en ferðalag á eigin vegum þá er hægt að finna töluvert af alls kyns pakkaferðum á Spánarstrendur og líka til Krítar. Ef þú vilt til að mynda leggja í hann í dag, á morgun eða í næstu viku er um ýmislegt að velja hjá Gaman-Ferðum, Úrval-Útsýn og Vita. Túristi uppfærir líka reglulega lista með tilboðsferðum á Spánarstrendur og til Krítar.

Líka hótelútsölur

Það eru ekki bara forsvarsmenn flugfélaga og ferðaskrifstofa sem bjóða afslætti þessa dagana því þá má líka finna gistingu í stórborgum, við strendur og í sveitum á tilboði. Í gær hófst til að mynda útsala hjá Hotels.com og bókunarsíðan er líka með sérstaka afslætti á sumardvalarstöðum. Á vef Expedia er svo að finna strandhótel á afslætti og hjá Booking.com eru uppfærð tilboð á hverjum degi. Það er hins vegar ágætis regla að kanna alltaf hvað kjör eru í boði ef bókað er beint á heimasíðu viðkomandi hótels.