Samkomulag við Rússa er forsenda fyrir Asíuflugi frá Íslandi

WOW air ætlar til Asíu en áður en hægt er að leggja í hann þarf að ganga frá samningi við stjórnvöld í víðfeðmasta land veraldar. 

Hong kong Chester Ho

Skúli Mogensen, forstjóri og stofnandi WOW air, segir að flugfélagið muni hefja beint flug til Asíu á næsta ári og nú sé unnið að því að ákveða hvaða áfangastaðir í heimsálfunni verði fyrir valinu. Þetta kom fram í viðtali Markaðarins við Skúla í fyrradag. Hingað til hefur áætlunarflug milli Íslands og Asíu ekki verið í boði þrátt fyrir að bæði kínversk, japönsk og sérstaklega flugfélög frá Miðausturlöndum hafi aukið verulega umsvif sín á hinum Norðurlöndunum. 
En áður en að hægt verður að leggja í jómfrúarferðina frá Íslandi til Austurlanda fjær þá þurfa íslensk stjórnvöld og WOW air að ná samkomulagi við Rússa um yfirflug enda varla hjá því komist að fljúga yfir Rússland á leiðinni frá Keflavíkurflugvelli til fjölförnustu flughafnanna í Kína, Japan eða S-Kóreu. Viðræður um þess háttar samning áttu sér stað í Moskvu um mánaðarmótin og verður þeim haldið áfram á fundi hér á landi í september. Í Moskvu var hins vegar undirritað samkomulag sem felur í sér að hámarkstíðni flugferða milli landanna tveggja eykst úr þremur í sjö flug í viku og þremur nýjum áfangastöðum bætt við í Rússlandi fyrir íslensk flugfélög; Sochi, Vladivostok og Kaliningrad. Samkvæmt tilkynningu á vef utanríkisráðuneytisins sátu forsvarsmenn Air Atlanta, Icelandair og WOW air fundinn í Moskvu auk fulltrúa utanríkisráðuneytisins, samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytisins og Samgöngustofu.

Gætu sett skilyrði um beint flug til Rússlands

Það mun þó ekki vera nóg að íslensk stjórnvöld nái samkomulag um yfirflug við Rússa því flugfélögin þurfa í framhaldinu að gera álíka samning hvert fyrir sig. Og samkvæmt heimildum Túrista þá eru líkur á því að Rússar setji það sem skilyrði að viðkomandi flugfélag hefji áætlunarflug til Rússlands á sama tíma og gengið er frá samkomulagi um flug yfir landið. Icelandair er eina flugfélagið sem haldið hefur úti áætlunarferðum hefur milli Íslands og Rússlands en sumarið 2013 og 2014 bauð félagið upp á flug til Sankti Pétursborgar. Forsvarsmenn rússneska flugfélagsins Transaro höfðu reyndar uppi áform um vikulegt flug til Íslands frá Moskvu fyrir þremur árum síðan ekkert varð úr þeim áformum enda fór flugfélagið á hausinn stuttu síðar.

Hvaða borgir í Asíu?

Það sem af er ári eru Kínverjar fjórða fjölmennsta þjóðin í hópi ferðamanna á Íslandi þrátt fyrir að þeir þurfi að millilenda í Evrópu á leið sinni hingað. Áhuginn á Íslandsferðum er því mikill í Kína og viðmælendur Túrista segja flug til Peking vera heppilegasta fyrsta skrefið fyrir íslenskt flugfélag í Asíu. Ekki aðeins vegna þess hve stór markaðurinn þar er heldur spilar þar einnig inn í að flugið héðan til höfuðborgarinnar tekur um 10 og hálfan tíma og þar með væri hægt að fljúga sömu þotunni fram og tilbaka innan sólarhrings. Flugið til Tókýó er einum klukkutíma lengra og til Hong Kong tekur 12 og hálfan tíma að flúga. En eins og Túristi greindi frá í vetur þá sýndu athuganir flugbókunarsíðunnar Skyscanner að mikill áhugi er á flugi frá Hong Kong til Íslands.