Skráning á heimagistingu verður einfaldari og ódýrari

reykjavik Tim Wright

Krafa um heilbrigðisvottorð verður ekki lengur skilyrði fyrir því að fá leyfi fyrir skammtímaleigu á íbúðarhúsnæði. Krafa um heilbrigðisvottorð verður ekki lengur skilyrði fyrir því að fá leyfi fyrir skammtímaleigu á íbúðarhúsnæði. 
Um áramót gengu í gildi nýjar reglur um heimagistingu og samkvæmt þeim verða leigusalar að skrá fasteignir sínar hjá sýslumanni. Rekstrarleyfi frá heilbrigðisnefnd er forsenda fyrir skráningunni og hefur sú krafa verið umdeild. Í frétt RÚV frá því í janúar var til að mynda haft eftir Árnýju Sigurðardóttur, framkvæmdastjóra heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, að nýja fyrirkomulagið væri ekki einfaldara en það gamla. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, sagði að innleiðing nýju reglnanna hefði valdið vonbrigðum í svari til Túrista.
Í vikunni voru hins vegar samþykktar breytingar á lögunum og frá og með 1. júlí nk. verður heimagisting ekki lengur starfsleyfisskyld samkvæmt upplýsingum frá umhverfisráðuneytinu. Þar með fellur krafa um vottorð frá heilbrigðisnefnd niður en þess háttar kostar í dag hátt í 50 þúsund krónur. Árlegt skráningargjald til Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, sem sér um eftlitlit með heimagistingu, er hins vegar 8 þúsund kr.

Hátt hlutfall óskráðra eigna

Í dag hafa verið gefin út 429 leyfi fyrir heimagistingu en síðast þegar bandaríska gistimiðlunin Airbnb gaf upplýsingar um umsvif sín á Íslandi kom fram að fyrirtækið hefði um 4 þúsund íslenska gistikosti á skrá. Það er vísbending um að mikill meirihluti þeirrar gistingar sem í boði er á vef Airbnb er óskráður. Leyfisnúmer frá Sýslumanni eru líka vandfundin í lýsingum á íslenskum fasteignum hjá Airbnb en samkvæmt lögunum er leigusölum skylt að láta þessi númer koma fram í öllu markaðsefni. Brot á því getur valdið stjórnvaldssekt sem getur numið allt að einni milljón króna. Samkvæmt svari talsmanns fyrirtækisins, við fyrirspurn Túrista, á það að vera einfalt fyrir leigusala að setja númerin inn í leiguauglýsingar á vefsíðunni.
Það er í verkahring Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu að hafa eftirlit með því að nýju reglunum sem framfylgt og nýlega var ráðinn einn starfsmaður í það verk.

Skýr merki um atvinnustarfssemi

Í lögunum er heimagisting skilgreind sem gisting á lögheimili einstaklings eða einni annarri fasteign í hans eigu sem hann hefur persónuleg not af. Ekki má leigja út í meira en 90 daga á ári og tekjurnar af þessu mega ekki fara yfir 2 milljónir kr. Greining hollensk sérfræðings, sem unnin var fyrir Samtök ferðaþjónustunnar, leiðir hins vegar í ljós að meirihluti íbúða sem er í leigu á vef Airbnb í Reykjavík eru á vegum aðila sem eru með fleiri en eina íbúð. Það feli í sér að útleiga á Airbnb gistirýmum í Reykjavík sé í meira mæli atvinnustarfsemi hér á landi en þekkist í öðrum evrópskum borgum samkvæmt því sem segir í fréttatilkynning frá SAF. Þar kemur einnig fram að áætlaðar tekjur af Airbnb gistingu hafi numið um 5,7 milljörðum kr. í fyrra.