Skutbíll á verði smábíls við Leifsstöð

Verðskrár tveggja af stærstu bílaleigum landsins hafa lækkað umtalsvert síðastliðið ár.

island vegur ferdinand stohr

Verðskrár tveggja af stærstu bílaleigum landsins hafa lækkað umtalsvert síðastliðið ár. Það er mikið offramboð á bílaleigubílum og bílaleigurnar keyra niður verð. Þetta fullyrðir Garðar K. Vilhjálmsson, eigandi Bílaleigunnar Geysis, í viðtali við Morgunblaðið í dag. Hann segir að í evrum talið þá hafi verð á smábíl hjá Geysi lækkað um 10-20% frá því í fyrra.
Lækkunin hjá tveimur af stærstu bílaleigum landins er þó meiri samkvæmt niðurstöðum verðkannana Túrista á bílaleiguverði við Keflavíkurflugvöll. Í dag kostar til að mynda 113.800 krónur að leigja bíl af minnstu gerð hjá Avis við Keflavíkurflugvöll síðustu 14 dagana í júlí. Leigan hjá fyrirtækinu, fyrir sama tímabil í fyrra, var hins vegar nærri tvöfalt hærri eða 220 þúsund krónur samkvæmt athugun Túrista í lok mars á síðasta ári. Sá sem bókar bíl hjá Avis í dag fær hins vegar skutbíl á 173 þúsund krónur seinni tvær vikurnar í júlí sem er nærri fimmtíu þúsund krónum minna en smábíll kostaði í fyrra.

Miklar verðbreytingar síðustu vikur

Í evrum talið þá nemur lækkunin hjá Avis, á leiguverði á bíl af minnstu gerð, nærri fjörutíu af hundraði milli kannananna í mars í fyrra og í dag. Og þess má geta að verðskrá bílaleigunnar fyrir þetta leigutímabil hefur farið lækkandi síðustu daga því þann 7. júní sl. kostaði ódýrasti bíllinn hjá Avis 20 þúsund krónum meira en í dag.
Verðþróunin hjá Hertz við Keflavíkurflugvöll er með svipuðum hætti frá því í mars í fyrra. Þá kostaði leiga á smábíl, 17-31.júlí, 203 þúsund kr. en í verðið var komið niður í 132 þúsund í mars sl. en er í dag 125 þúsund. Reyndar var það farið niður í 112.600 kr. í könnun Túrista fyrr í þessum mánuði en hefur hækkað um tíund síðan þá. Hálfsmánaðarleiga á skutbíl hjá Hertz kostar hins vegar 199 þúsund eða 4 þúsund krónum minna en í könnun Túrista fyrir 15 mánuðum síðan.