Töskurnar fylgja sjaldnast ódýrasta farmiðanum

16 af þeim 24 fljúgfélögum sem fljúga til og frá Keflavíkurflugvelli rukka aukalega fyrir innritaðan farangur. Nema farþeginn bóki dýrari miða.

kef taska 860

16 af þeim 24 fljúgfélögum sem fljúga til og frá Keflavíkurflugvelli rukka aukalega fyrir innritaðan farangur. Nema farþeginn bóki dýrari miða. Fargjöld til og frá landinu hafa verið óvenju lág undanfarið og samkvæmt athugun Túrista í byrjun mánaðar var hægt að fljúga til meira en 30 evrópskra borga fyrir innan við 15 þúsund krónur með stuttum fyrirvara. Þetta mikla framboð á ódýrum farmiðum um hásumar skrifast ekki aðeins á aukna samkeppni í fólksflutningum til og frá Íslandi. Sú staðreynd að bróðurpartur flugfélaganna rukkar farþegana aukalega fyrir innritaðan farangur, val á sætum og allar veitingar vegur líka þungt. Sérstaklega töskugjaldið sem getur verið allt að sex þúsund krónur í Evrópuflugi og það bara fyrir aðra leiðina. Mest borga farþegar Wizz Air en farangursgjald félagsins er ekki föst tala en er oftast í kringum 50 evrur (um 6 þúsund krónur) í flugi til og frá Íslandi. Það er meira en þrefalt meira en þeir sem fljúga héðan með Eurowings eða Iberia Express borga undir töskurnar eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan. Í flugi til Norður-Ameríku fylgir farangur hjá öllum flugfélögum nema WOW air og hæst er það 6.999 krónur þegar flogið er yfir á vesturströnd Bandaríkjanna.

Innifalinn farangur á undanhaldi

Það eru ekki aðeins farþegar lággjaldaflugfélaga sem borga aukalega fyrir allt annað en flugmiðann sjálfan þegar þeir bóka ódýrasta fargjaldið. Hefðbundin flugfélög eins og British Airways, Finnair, Lufthansa og SAS gera það einnig í Íslandsflugi sínu. Og forsvarsmenn Icelandair hafa boðað fargjöld án farangursheimildar síðar á þessu ári og fetar félagið þar með í spor samkeppnisaðilanna sem bjóða ódýrari flugmiða fyrir þá sem kjósa að ferðast aðeins með handfarangur.