WOW líka komið til Brussel

brussel Marius Badstuber

Nú er WOW air byrjað að fljúga til höfuðborgar Belgíu og þar með fljúga bæði íslensku flugfélögin til borgarinnar allt árið um kring. Nú er WOW air byrjað að fljúga til höfuðborgar Belgíu og þar með fljúga bæði íslensku flugfélögin til borgarinnar allt árið um kring.
Ef þú ert á leið til Brussel á næstunni þá geturðu valið úr tveimur ferðum á dag til borgarinnar því í sumar fljúga þotur Icelandair og WOW air þangað daglega. Fyrrnefnda félagið hefur boðið upp á áætlunarflug til borgarinnar frá árinu 2010 en WOW air fór jómfrúarferð sína þangað fyrir helgi. Yfir vetrarmánuðina fækka bæði félög ferðunum niður í fjórar á viku en framboð á flugi milli Íslands og Belgíu hefur því tvöfaldast með tilkomu WOW.
Þetta er þó ekki í fyrsta skipti sem samkeppni er á þessari flugleið því sumrin 2013 og 2014 flaug hið belgíska Thomas Cook Airlines þessa leið en félagið er eitt sárafárra erlendra flugfélaga sem hafa hætt að fljúga til Íslands síðustu ár. Stærsta flugfélag Belga, Brussel Airlines, hefur hins vegar aldrei boðið upp á Íslandsflug, öfugt við önnur dótturfélög Lufthansa Group sem öll fljúga hingað til lands yfir sumarmánuðina. 

Ódýrari gisting um helgar

Brussel er stundum höfð fyrir rangri sök og sögð litlaus diplómataborg. Sú lýsing á kannski við á skýjuðum mánudagsmorgni í Evrópuhverfinu en annars býður þessi fallega heimsborg upp á nær stanslausa veislu eins og Soðþættir Brusselbúans Kristins eru gott dæmi um. Sá matgæðingur nýtur þess besta sem borgin hefur upp á bjóða og miðlar því á einstakan hátt til landa sinna í gegnum YouTube.
Tíðar flugsamgöngur til Brussel gefa þó ekki aðeins íslensktum túristum betri aðgang að belgískum kræsingum því staðsetning borgarinnar er líka góð fyrir þá sem ætla í ferðalag um vesturhluta Evrópu. Eins er auðveldlega hægt að fara í dagsferðir til Bruges og Antwerpen frá Brussel og brjóta þannig upp borgarferðina.
Frá Zaventem flugvelli er líka mikið framboð á flugi til Afríku fyrir þá sem eru á leiðinni þangað og auðvitað innan Evrópu enda eiga ófáir erindrekar, stjórnmálamenn og sérfræðingar á öllum sviðum erindi til borgarinnar alla daga. Nema kannski um helgar og þess vegna er hótelgistingin í Brussel oftar en ekki ódýrari um helgar en á virkum dögum.