Áfram lækkar verðið hjá Avis og Hertz við Keflavíkurflugvöll

Verðskrár tveggja af stærstu bílaleigum landsins hafa lækkað umtalsvert síðustu vikur og miklu munar á verðinu í dag og í fyrra. 

island vegur ferdinand stohr

Verðskrár tveggja af stærstu bílaleigum landsins halda áfram að lækkað. Ferðamaður sem byrjar tveggja vikna ferðalag um Ísland á mánudaginn getur í dag bókað bílaleigubíl hjá bæði Hertz og Avis fyrir mun minna en ef hann hefði gengið frá leigunni með góðum fyrirvara í vor. Í dag kostar bíll af minnstu gerð hjá Hertz 90.200 krónur en 99.600 hjá Avis en í könnun Túrista í lok mars var verðið hjá Avis, fyrir sama bíl, 133 þúsund en 112 þúsund hjá Hertz.
Leiguverðið fyrir seinni tvær vikurnar í júlí hefur lækkað hjá bílaleigunum tveimur síðustu vikur, eins og kannanir Túrista hafa sýnt, en aldrei hefur verðið verið eins lágt og það er í dag. Sé litið til verðslagsins fyrir ári síðan þá kemur í ljós að ferðamaður sem leigir bíl hjá Avis og Hertz í dag borgar meira en helmingi minna en sá sem bókaði bílaleigubil í mars í fyrra til afnota í júlí það ár. Þá kostaði nefnilega ódýrasti bíllinn hjá Avis og Hertz rúmlega 200 þúsund krónur. Í dag er verðið hins vegar meira en helmingi lægra eins þó aðeins séu tveir dagar í að leigutímabilið hefjist.

Offramboð á bílaleigubílum

Í viðtali við Morgunblaðið í lok júní fullyrti eigandi Bílaleigunnar Geysis að offramboð væri á bílaleigubílum hér á landi og verðskrár þeirra hefðu því lækkað. Og eins sjá má á dæmunum hér fyrir ofan þá á það sannarlega við nú yfir hásumarið en verðlækkunin er þó hlutfallslega minni í evrum talið enda hefur íslenska krónan styrkt umtalsvert síðastliðið ár. Engu að síður er ljóts að erlendir ferðamenn geta fengið ódýrari bílaleigubíla við Keflavíkurflugvöll í dag en í fyrra.