Auglýsingaherferð Icelandair tilnefnd til verðlauna

Herferð Icelandair, Stopover Buddy, hlaut nýverið fjórar tilnefningar til Euro Effie auglýsingaverðlaunanna.

icelandair 757 a

Herferð Icelandair, Stopover Buddy, hlaut nýverið fjórar tilnefningar til Euro Effie auglýsingaverðlaunanna. Stór hluti af farþegum Icelandair eru farþegar sem fljúga milli N-Ameríku og Evrópu en stoppa hér á landi á leið sinni yfir hafið, svokallaðir Stopover farþegar. Í fyrra efndi Icelandair til kynningarherferðar sem kallaðist Stopover Buddy og gekk hún út á að tengja farþega Icelandair við áhugavert og gestrisið starfsfólk fyrirtækisins sem sýndi erlendu gestunum land og þjóð. Flugfarþegar gátu skráð sig og óskað eftir ferðafélaga frá Icelandair eftir áhugasviði, tungumálakunnáttu og dagsetningum. Markaðssetning þjónustunnar fór aðallega fram á netinu og í gegnum almannatengsl, en herferðin er ein farsælasta vefmarkaðsherferð Icelandair frá upphafi því í kjölfar hennar fjölgaði Stopover-bókunum um 42 prósent samkvæmt því sem segir í tilkynningu.
Nýverið var Stopover Buddy kynningin tilnefnd til Euro Effie verðlaunanna í mismunandi fjórum flokkum en verðlaunin verða afhent þann 17. október. Meðal annarra fyrirtækja sem keppa um heiðurinn við Icelandair eru Booking.com, Sodastream og Ferðamálaráð Svíþjóðar.
Það voru Íslenska auglýsingastofan og The Brooklyn Brothers í London sem unnu að herferðinni með Icelandair.