Beint flug frá Bretlandi til Akureyrar í vetur

Flogið verður frá Liverpool, Newcastle, Leeds og fleiri borgum til Akureyrar í janúar og febrúar en heimamenn fyrir norðan geta þó ekki bókað sæti. 

nordurljos markadsstofanordurlands

Flogið verður frá Liverpool, Newcastle, Leeds og fleiri borgum til Akureyrar í janúar og febrúar en heimamenn fyrir norðan geta þó ekki bókað sæti.  Breska ferðaskrifstofan Super Break mun á næstu dögum hefja sölu á ferðum til Norðurlands með beinu flugi frá Bretlandi. Þetta verður í fyrsta sinn sem boðið verður upp á Akureyrarflug frá Bretlandi og í boði verða átta brottfarir frá jafn mörgum flugvöllum í Bretlandi, þeirra á meðal eru Newcastle, Liverpool, Leeds, Bradford og Bournemouth. Samtals eru sæti fyrir um 1500 farþega í þessum ferðum samkvæmt því sem kemur fram í tilkynningu frá Markaðsstofu Norðurlands. Þar segir jafnframt að fyrst um sinn verði boðið upp á átta brottfarir, allar í janúar og febrúar á næsta ári, og sérstök áhersla verði lögð á upplifa norðurljósin.
Pakkaferðirnar eru þriggja og fjögurra nátta og auk gistingarinnar eru útsýnisferðir um Mývatnssveit innifaldar í verðinu. „Ferðamennirnir geta svo bætt við ferðalagið eftir eigin óskum, til dæmis með heimsókn í Bjórböðin, hvalaskoðun eða hestaferðir svo eitthvað sé nefnt,“ segir í tilkynningu.

„Besta svæðið til að sjá norðurljós“

Þetta er í fyrsta skipti sem Super Break býður upp á eigið leiguflug en þessar Íslandsferðir eru viðbragð við vaxandi eftirspurn eftir ferðum hingað til lands en Markaðsstofa Norðurlands hefur unnið að því að fá fleiri ferðamenn á Norðurland yfir veturinn. „Þetta er eitthvað sem við höfum ekki gert áður og sýnir hversu ákveðin við erum í að bjóða upp á einstakar og áhugaverðar ferðir. Við vitum að það er ekki hægt að fljúga beint til Norðurlands frá Bretlandi og vonumst þess vegna eftir því að okkar sölufulltrúar geti nýtt sér hvað þetta er einstakt. Eftirspurnin eftir norðurljósaferðum er mikil og það skemmtilega við þessar stuttu ferðir okkar er hvað þær bjóða líka upp á margt annað skemmtilegt og spennandi,“ segir Chris Balmforth, sölustjóri hjá Super Break. Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, segir að Norðurland sé besta svæðið á landinu til að sjá norðurljós. „Veðuraðstæður eru þannig að mjög góðar líkur eru á því að sjá norðurljósin hér og það heillar okkar gesti. Vetrarferðamennska hefur farið vaxandi síðustu ár, enda margt spennandi sem hægt er að gera og margir staðir sem eru ótrúlega fallegir á veturna.“
Eins og staðan er í dag verða sæti í flugferðir Super Break ekki seld farþegum hér á landi.