Víst dró easyJet úr Íslandsflugi í maí

Það varð verulegur samdráttur í ferðum Breta til Íslands í maí og meginástæðan liggur nú fyrir.

easyjet gatwick

Það varð verulegur samdráttur í Íslandsferðum Breta í maí og meginástæðan liggur nú fyrir. Þau tíðindi áttu sér stað í maí sl. að breskum ferðamönnum hér á landi fækkaði um 28 prósent frá sama tíma í fyrra. En Bretar eru næstfjölmennsta þjóðin í hópi ferðamanna á Íslandi og svona mikil niðursveifla er því athugunarverð. Í frétt Túrista um þennan mikla samdrátt sagði Andy Cockburn, talsmaður easyJet, að þar á bæ yrðu menn ekki varir við minni áhuga á Íslandsferðum og benti á að félagið hefði aukið framboð á flugi til Íslands um nærri fimmtung á tímabilinu.
Það reyndist hins vegar ekki vera rétt því samkvæmt nýbirtum farþegatölum frá breskum flugmálayfirvöldum þá var ekkert flogið til Íslands í maí frá Bristol og Belfast. Og vegna færri ferða frá Standsted þá kom aðeins þriðjungur af þeim fjölda sem hafði lagt leið sína hingað frá þessum Lundúnarflugvelli á sama tíma í fyrra. Í heildina nam samdrátturinn frá þessum þremur flugvöllum um 3.300 farþegum og vafalítið var bróðurpartur þeirra Bretar á leið til Íslands í frí enda hafa forsvarsmenn easyJet áður sagt að vægi íslenskra farþega í vélum félagins, til og frá Keflavíkurflugvelli, sé lítið. Í heildina fækkaði breskum ferðamönnum hér á landi um 4.437 og megin skýringin liggur því í þessum samdrætti í Íslandsflugi easyJet í maí.

Minnkandi eftirspurn á þessum tíma árs

Þegar Túristi krafði Cockburn útskýringu á þessu ósamræmi viðurkenndi hann að upplýsingagjöfin hefði ekki verið nákvæm. Það hafi nefnilega verið samdráttur í ferðum easyJet til Íslands í maí vegna minnkandi eftirspurnar en hins vegar væri það rétt að á ársgrundvelli væri easyJet að auka Íslandsflugið um 19 prósent.
Undir venjulegum kringumstæðum hefði Túristi ekki þurft að reiða á upplýsingar um ferðafjölda frá easyJet því síðustu 6 ár hefur Túristi fært daglegt bókhald yfir alla flugumferð til og frá Keflavíkurflugvelli. Í fyrsta sinn í maí sl. kom hins vegar upp villa í skjalinu sem hélt utan um flugið fyrir mánuðinn og því var ekki unnt að birta samantekt eins og þá sem Túristi birti í gær um flugumferðina í júní. Þar kom einmitt fram að ferðum easyJet fækkaði þá á ný en þó ekki eins mikið og í maí. Hvort það hefur haft verulega áhrif á ferðamannastrauminn hingað frá Bretlandi júní kemur í ljós þegar Ferðamálastofa birtir niðurstöður talningar sinnar á Keflavíkurflugvelli í síðasta mánuði.