Færri hótelbókanir með stuttum fyrirvara og fleiri afbókanir hjá hópum

Hjá tveimur stærstu hótelkeðjum landsins fækkar þeim gestum sem bóka gistingu stuttu fyrir komu og hópar sem gengu frá pöntun fyrir löngu síðan eru farnir að afbóka í auknum mæli.

reykjavik Tim Wright

Hjá tveimur stærstu hótelkeðjum landsins fækkar þeim gestum sem bóka gistingu stuttu fyrir komu og hópar sem gengu frá pöntun fyrir löngu síðan eru farnir að afbóka í auknum mæli. Erlendum hótelgestum fækkaði á höfuðborgarsvæðinu í maí og samkvæmt uppgjöri Icelandair Group fyrir júní þá lækkaði herbergisnýting á hótelum fyrirtækis úr 84,5 prósentum niður í 80 prósent. Samdráttur í bókunum með stuttum fyrirvara og afbókanir hjá hópum eru sagðar ástæður þess að nýtingin lækkar á milli ára hjá Icelandair Hotels sem er næststærsta hótelkeðja landsins á eftir Íslandshótelum. Þar á bæ eru menn hins vegar að upplifa sömu hluti, þ.e. færri bókanir samdægurs og fleiri afbókanir hópa, samkvæmt svari Davíðs Torfa Ólafssonar, framkvæmdastjóra Íslandshótela, við fyrirspurn Túrista. En hótelkeðjunar tvær hafa samtals á að skipa hátt í 3.500 hótelherbergi út um allt land.

Útlendingum fækkar í fyrsta skipti síðan 2013

Gistináttatölur Hagstofu Íslands fyrir júní liggja ekki fyrir fyrr en í lok þessa mánaðar en samkvæmt tölunum fyrir maí þá fækkaði gistinóttum útlendinga á höfuðborgarsvæðinu lítillega í þeim mánuði. Það var í fyrsta skipti síðan í september 2013 að samdráttur varð í fjölda erlendra hótelgesta í Reykjavík og nágrenni. Á Vesturlandi og Vestfjörðum fækkaði hins vegar gistinóttunum um nærri tíund í maí síðastliðinum en aftur á móti fjölgaði útlendu gestunum á Suðurnesjum um meira en helming eins og sjá má töflunni fyrir neðan.