Ferðagleði Íslendinga í hæstu hæðum

Apríl, maí og júní fara allir á topplistann yfir þá 10 mestu ferðamánuðina þegar kemur að utanferðum Íslendinga.

zurich 860

Apríl, maí og júní fara allir á topplistann yfir þá 10 mestu ferðamánuðina þegar kemur að utanferðum Íslendinga. Í júní innrituðu 62.234 Íslendingar sig í flug frá Keflavíkurflugvelli og allt frá því að talning hófst á ferðalögum landands til útlanda þá hefur fjöldinn aðeins einu sinni verið meiri. Það var í júní í fyrra þegar Íslendingar fjölmenntu á Evrópukeppnina í Frakklandi en þá fóru samt aðeins um 5 þúsund fleiri til útlanda en í síðasta mánuði. Og eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan þá komast síðustu þrír mánuðir allir á listann yfir þau tímabil þar sem ferðagleði Íslendinga hefur verið mest og ferðametin sem sett voru á árunum fyrir hrun falla nú eitt af öðru.
Á fyrri helmingi ársins flugu í heildina um 290 þúsund íslenskir farþegar út í heim frá Keflavíkurflugvelli og hafa þeir aldrei verið svo margir á þessu tímabili. Sterkt gengi krónunnar og mikið framboð á ferðum úr landi hefur þar vafalítið mikið að segja en eins og Túristi greindi frá í byrjun júní þá var hægt að bóka mjög ódýra flugmiða til meira en 30 evrópskra borga með stuttum fyrirvara. Tilboð á sólarlandaferðum líka verið fjölmörg en í sumar halda 24 flugfélög uppi áætlunarflugi til og frá landinu til hátt í 90 áfangastaða.