Fleiri laus hótelherbergi í Reykjavík í dag en í febrúar

Ef bókunarstaðan hjá Booking.com endurspeglar hótelmarkaðinn í höfuðborginni þá stefnir í að fleiri herbergi verði þar laus um helgina en raunin var í lok febrúar síðastliðinn. Hins vegar er þettbókað hjá Airbnb en þeir gistikostir eru sennilega langflestir án leyfis.

reykjavik Tim Wright

Ef bókunarstaðan hjá Booking.com endurspeglar hótelmarkaðinn í höfuðborginni þá stefnir í að fleiri herbergi verði þar laus um helgina en raunin var í lok febrúar síðastliðinn. Hins vegar er þéttbókað hjá Airbnb. Þegar leitað er eftir tveggja manna hótelbergi í Reykjavík um helgina hjá Booking.com kemur í ljós að 77 prósent af þeim herbergjum sem bókunarsíðan hefur úr að moða í borginni eru frátekin. Þegar Túristi gerði samskonar leit hjá Booking.com fyrir síðustu helgina í febrúar síðastliðnum þá var hins vegar 91 prósent af herbergjunum uppseld. Ferðamaður á leið til höfuðborgarinnar á fimmtudaginn hefur því töluvert fleiri valkosti en sá sem var í sömu sporum fyrir fimm mánuðum síðan þó núna sé háannatími í ferðaþjónustu en ekki hávetur.
Hafa ber í huga að þrátt fyrir að Booking.com sé líklega umsvifamesta hótelbókunarfyrirtæki í heimi þá gefur bókunarstaðan á vefsíðunni ekki fullkomna mynd af reykvíska hótelmarkaðinum. Þetta er þó vísbending um að í dag sé framboð af lausum herbergjum í höfuðborginni töluvert. Það sést líka á því að notendur HotelTonight appsins finna í dag nokkrar lausar gistingar í Reykjavík um helgina en þessa fyrrnefndu febrúarhelgi var ekkert laust hjá HotelTonight.
Bókunarstaðan í Reykjavík er þó mun betri en í höfuðborgum hinna Norðurlandanna þar sem hlutfall lausra herbergja hjá Booking.com í Kaupmannahöfn, Helsinki, Ósló og Stokkhólmi er miklu hærra en hér á landi.

Airbnb með um 3800 gistikosti í Reykjavík

Annað umsvifamikið fyrirtæki í sölu á gistingu á Íslandi er Airbnb en þar á bæ er 92 prósent af allri gistingu í Reykjavík um helgina uppbókuð. Framboðið er þó töluvert því Airbnb býður upp á 306 mismunandi gistingar í höfuðborginni frá fimmtudegi til sunnudags sem þýðir að þessi bandaríska gistimiðlun hefur á sínum snærum ríflega 3800 gistingar í Reykjavík í sumar. Til samanburðar þá hafa tvær stærstu hótelkeðjur landsins, Íslandshótel og Icelandair Hotels, yfir að ráða um 3.500 herbergjum samtals út um allt land. En forsvarsmenn þessara tveggja hótelfyrirtækja segja að í dag sé minna um að fólk bóki herbergi með stuttum fyrirvara. Þess háttar bókanir eru hins vegar hótelunum mjög mikilvægar því þær eru dýrari og oftar en ekki pantaðar beint hótelunum sjálfum. Því þarf ekki að greiða af þeim þóknun til netbókunarfyrirtækja.
Samkvæmt vef Sýslumannsins í höfuborginni hafa 285 leyfi til heimagistingar verið gefin út í Reykjavík en sem fyrr segir þá eru gistikostirnir á Airbnb í borginni ríflega þrettán sinnum fleiri.