Hefja Íslandsflug úr miðborg Lundúna

British Airways hefur nýverið tvöfaldað flug sitt hingað til lands frá Heathrow og nú bætir félagið við áætlunarferðum frá London City flugvelli.

BritishAirways embraer Nick MorrishBritish Airways

Fyrir tæpum tveimur árum síðan hóf British Airways Íslandsflug á ný og bauð þá upp á þrjár ferðir í viku hingað frá Heathrow flugvelli við Lundúnir. Félagið flaug svo hingað allt að daglega síðasta vetur og nýverið var tilkynnt að næstkomandi vetur myndu þotur British Airways fljúga tvisvar á dag til Keflavíkurflugvallar frá Heathrow. Forsvarsmenn breska flugfélagsins sjá samt tækifæri í ennþá meira Íslandsflugi og hafa ákveðið að bjóða upp á tvær ferðir í viku frá London City flugvelli til Íslands.
Sá flugvöllur er við bakka Thames ár í austurhluta Lundúna en þar má aðeins notast við minni gerðir af farþegaflugvélum. Mun British Airways því notast við Embraer E190SR flugvélar í fluginu hingað en í þeim eru sæti fyrir 98 farþega. Flogið verður á fimmtudögum og sunnudögum frá lokum október og fram í enda marsmánaðar og kosta ódýrustu farmiðarnir um 8 þúsund krónur. Það er nokkru meira en lægstu fargjöld British Airways til Íslands frá Heathrow kosta því samkvæmt athugun Túrista er töluvert úrval af flugmiðum í boði á þeirri flugleið á 4.420 krónur. Borga þarf aukalega fyrir innritaðan farangur hjá breska flugfélaginu. Líkt og hjá flestum öðrum flugfélögum á Keflavíkurflugvelli líkt og kom fram í nýlegum samanburði Túrista.
Með þessari viðbót þá verður flogið 81 sinni í viku hverri frá Keflavíkurflugvelli til höfuðborgar Bretlands í fyrra. Ferðirnar skiptast á milli 5 flugfélaga eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan.