Hætta að rukka fyrir handfarangur

Afkoma flugfélagsins Wizz Air er svo góð að forsvarsmenn þess ætla að hætta að pirra farþegana með því að krefjast þóknunar fyrir hefðbundnar handfarangurstöskur.

wizz budapest

Afkoma flugfélagsins Wizz Air er svo góð að forsvarsmenn þess ætla að hætta að pirra farþegana með því að krefjast þóknunar fyrir hefðbundnar handfarangurstöskur.
Það er reglulega hægt að finna hræódýr fargjöld með Wizz Air frá Keflavíkurflugvelli til Póllands, Litháen, Lettlands, Tékklands og Ungverjalands. Hins vegar mega farþegarnir aðeins taka með sér handfarangur um borð sem kemst undir sætið fyrir framan þá. Fyrir stærri töskur þarf að borga aukalega og nemur gjaldið um 2.200 krónum (18 evrur), aðra leiðina. Forsvarsmenn þessa ungverska lággjaldaflugfélags hafa hins vegar ákveðið að láta af þessari gjaldheimtu og ástæðan er tvíþætt. Í fyrsta lagi þá hefur þetta handfarangursgjald lengi farið í taugarnar á viðskiptavinum flugfélagsins og í öðru lagi þá er hagnaður af reksti Wizz Air mjög mikill þessi misserin og því fannst stjórnendum félagsins réttlætanlegt að hætta gjaldheimtunni frá og með lokum október samkvæmt frétt Bloomberg.

Kostar að innrita sig í flug

En þrátt fyrir að handfarangursþóknunin hverfi úr bókunarvél Wizz Air þá þurfa farþega félagsins áfram að borga fyrir innritaðan farangur og er gjaldið nokkru hærra en gengur og gerist hjá flugfélögunum sem halda uppi áætlunarflugi frá Keflavíkurflugvelli eins og nýleg verðkönnun Túrista leiddi í ljós. Farþegar Wizz sem ekki nýta sér netinnritun þurfa að auki að borga um 1200 kr. (10 evrur) fyrir að innrita sig á hefðbundinn hátt.
Eftir að handfarangursgjaldið hjá Wizz Air heyrir sögunni til í haust þá verður WOW air eina flugfélagið í Flugstöð Leifs Eiríkssonar sem er með þess háttar gjald. Nemur það á bilinu 2 til 4 þúsund krónum, allt eftir lengd flugferðarinnar.