Hraðbraut á Keflavíkurflugvelli

Á mörgum alþjóðaflugvöllum geta farþegar með einum eða öðrum hætti borgað aukalega fyrir að komast hraðar en aðrir í gegnum vopnaleit. Þess háttar hefur ekki verið í boði í Leifsstöð síðan árið 2007 en á því verður nú breyting.

Á mörgum alþjóðaflugvöllum geta farþegar með einum eða öðrum hætti borgað aukalega fyrir að komast hraðar en aðrir í gegnum vopnaleit. Frá og með morgundeginum geta þeir farþegar WOW air sem bókað hafa „Biz-fargjald“ farið sérstaka hraðleið í gegnum vopnaleitina í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og ætlunin er að bjóða fleiri farþegum upp á þennan valkost síðar meir samkvæmt tilkynningu frá flugfélaginu. Þjónustan er þó aðeins í boði fyrir flug WOW air frá Íslandi en ekki frá öðrum áfangastöðum félagsins.
WOW air hóf í ársbyrjun að bjóða þrenns konar fargjöld og þau dýrustu er hin fyrrnefndu „Biz-fargjöld“. Innifalið í þeim er til dæmis sæti með meira fótaplássi, innritaður farangur, máltíð um borð og nú hraðleið í gegnum öryggishliðin í Leifsstöð.

„Gullna hliðið“

Það tíðkast víða um heim að bjóða farþegum, sérstaklega viðskiptaferðalöngum, upp á flýtimeðferð við vopnaleit og var þess háttar í boði til skamms tíma á Keflavíkurflugvelli árið 2007. Þá fyrst og fremst fyrir farþega á viðskiptafarrými Icelandair. Þessi þjónusta var þó umdeild og gagnrýndi Björn Bjarnason, þáverandi dómsmálaráðherra, hana meðal annars vegna kostnaðar. Gekk þetta sérstaka öryggishlið stundum undir heitinu „Gullna hliðið“ í fjölmiðlum.