Íslenskt hótel tilnefnt til „Óskarsins”

Reykjavík4you er tilnefnt í flokki bestu íbúðahótela Evrópu. Eigendurnar segja góðar umsagnir gesta vega þungt í ferlinu.

reykjavik4you

„Þetta er lítið fjölskyldurekið íbúðahótel í miðbænum sem við hjónin höfum reist frá grunni í orðsins fyllstu merkingu. Síðustu 9 ár höfum við byggt þau hús sem hótelið er rekið í og útbúið og innréttað allar íbúðirnar,” segir Bjarni Sævar Geirsson sem ásamt konu sinni, Svölu Óskarsdóttur, á og rekur Reykjavik4you í Þingholtunum.

Nú er gististaðurinn þeirra tilnefndur í flokki bestu íbúðahótela í Evrópu hjá World Travel Awards en þau verðlaun eru reglulega kölluð Óskarsverðlaun ferðaþjónustunnar.

Að sögn Bjarna Sævars þá er þessi tilnefning hluti af markaðssetningu fyrirtækisins. Þannig hefur Reykjavik4you tekið þátt í World Travel Awards síðustu þrjú ár ásamt fjölda annarra fyrirtækja á Íslandi en í ár sótti hótelið jafnframt um tilnefningu í Evrópuflokknum. „Við þurftum að skila inn gögnum og síðan kom útsendari frá þeim og kynnti sér hvað við höfum upp á að bjóða. Þyngst vega þó umsagnir þeirra gesta sem dvalið hjá okkur og þar er staða okkar sterk.”

Máli sínu til stuðnings bendir hann á að hótelið sé með fullt hús stiga á vegamiklum ferðasíðum. Reykjavik4you Apartments hefur til að mynda lengi verið í öðru sæti á lista Tripadvisor yfir hótel í Reykjavík og er þar með fullt hús stiga.

Uppbyggingunni ekki lokið

Í baklóðinni við Bergstaðastræti 12, þar sem Reykjavik4you er til húsa stendur Brenna, einn elsti steinbærinn í Reykjavík, og er áætlunin að endurbyggja hann í upprunalegri mynd og innrétta sem svítu. Það verkefni er unnið í samráði við Minjastofnun og segir Bjarni Sævar þau hjón vera meðvituð um hve mikil verðmæti felist í sögunni og þessi endurbygging sé einskonar framlag þeirra til varðveislu hennar.

„Við höfum verið að undibúa þetta verkefni í þó nokkurn tíma því það er að mörgu er að hyggja. Nú erum við búin að láta sérsmíða alla glugga og hurð í húsið eftir upprunalegri gerð og verið er að leggja lokahönd á teikningar og útfærslur.”

Áhugasömum um þessa endurbyggingu Brennu gefst kostur á að fylgjast með gangi mála á sérstakri Facebook síðu sem þau hjón halda úti í tengslum við verkefnið.