Líta björtum augum til íslenska ferðamarkaðarins

Forsvarsmenn þýska flugfélagsins Lufthansa sjá tækifæri í auknu Íslandsflugi þrátt fyrir neikvæðar fréttir af sölu Íslandsferða hjá þýskum ferðaskrifstofum.

lufthansa andreas koster

Í vetur munu þotur Lufthansa fljúga þrisvar sinnum í viku hingað frá Frankfurt í Þýskalandi og verður þetta í fyrsta skipti sem þetta stærsta flugfélag Þjóðverja býður upp á áætlunarferðir hingað utan háannatímans í ferðaþjónustu. „Síðustu tvær sumarvertíðir á Íslandi hafa verið vel heppnaðar og gefið okkur tækifæri á að byggja upp tengsl við bæði neytendur og ferðaskrifstofur á Íslandi og í Þýskalandi. Við teljum því tímabært að bjóða upp á vetrarflug til Íslands jafnvel þó eftirspurnin sé minni á þeim tíma árs,” segir Andreas Köster, sölustjóri Lufthansa á Bretlandi, Írlandi og Íslandi.
Undanfarið hafa borist fréttir af afbókunum þýskra ferðahópa og forsvarsmenn umsvifamikilla ferðaskrifstofa þar í landi hafa sagt erfitt að verðleggja Íslandsferðir næsta árs vegna óvissunnar sem ríkir í ferðageiranum hér heima. Aðspurður segir Köster, að þetta ástand valdi honum ekki áhyggjum. „Við erum mjög jákvæð gagnvart íslenska markaðnum eins og fjölgun ferða okkar til Íslands frá Frankfurt og sumarflug frá Munchen er til marks um. Við aukum aðeins umsvif okkar þar sem við teljum að það borgi sig.”

Margar tengingar fyrir íslenska farþega

Þjóðverjar eru aðeins 28 prósent þeirra sem nýta sér flug Lufthansa milli Íslands og Þýskalands en hinir farþegarnir koma alls staðar að eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan. Ítalir eru næst fjölmennastir í Íslandsflugi þýska félagsins en framboð á beinu flugi milli Íslands og Ítalíu hefur verið mjög takmarkað og til að mynda lagðist Rómarflug Vueling og WOW af í sumar. Að jafnaði skipa svo íslenskir farþegar 8 af hverjum 100 sætum í flugi Lufthansa hingað til lands og segir Köster að með vetrarfluginu til Frankfurt gefist íslenskum farþegum Lufthansa tækifæri á framhaldaflugi til 174 evrópskra áfangastaða og 205 borga í Asíu, Ameríku, Miðausturlöndum og í Afríku.
Lufthansa er eitt þeirra flugfélaga sem hefur fetað sömu leið og lággjaldaflugfélögin og rukkar nú sérstaklega fyrir innritaðan farangur í flugi innan Evrópu. Það á einnig við um í flugi félagsins frá Keflavíkurflugvelli til Frankfurt en þangað fljúga líka Icelandair og WOW air allt árið um kring. Hjá WOW þarf einnig að borga fyrir innritaðan farangur og forsvarsmenn Icelandair hafa boðað ódýrari fargjöld án farangursheimildar.