Litlar verðsveiflur á bílaleigubílum í Flórída

Frá og með haustinu verður flogið héðan til þriggja borga á Flórídaskaganum og óhætt er að segja að verðskrár bílaleiganna séu samstilltar.

florida lance asper

Það er löng hefð fyrir vetrarferðum Íslendinga til Flórída en lengi vel hefur aðeins verið flogið héðan til Orlando. Í vor hóf WOW air svo flug til Miami og í byrjun september fer Icelandair í jómfrúarferð sína til Tampa. Þar með stóreykst framboð á flugi héðan til sólarfylkisins en bílaleigubíll er nánast þarfaþing fyrir ferðamenn á þessum slóðum, alla vega þá sem ætlar sér ekki aðeins að dvelja í miðbæjum. Og það er ekki annað að sjá en að verðskrár bílaleiganna við flugvellina í þessum þremur borgum gangi í takt, alla vega samkvæmt endurteknum verðathugunum Túrista á bílaleiguverði á þessum slóðum. Verðið fyrir veturinn hefur verið stöðugt en gæti farið að flökta nú þegar nær líður en eins og sjá má á töflunum hér fyrir neðan þá er í dag aðeins ódýrara að ganga frá leigunni í janúar, bæði á millistórum bíl og sjö manna. Hins vegar hefur verðið í nóvember hækkað lítillega.

Kostur að geta afbókað

Í könnun Túrista var leitarvel Rentalcars notuð en með henni er hægt að bera saman kjör á þekktustu bílaleigunum á hverjum stað fyrir sig. Leitarvélin finnur líka oft mjög hagstæð kjör á bílaleigubílum samkvæmt athugunum Túrista síðustu ár. Og þeir sem panta í gegnum Rentalcars geta oft afbókað bílanna með stuttum fyrirvara sem getur verið kostur þegar verðið lækkar.
Rentalcars knýr einnig bílaleiguleitina hér á síðunni.