Nú samkeppni í flugi til 5 bandarískra borga

WOW air fór jómfrúarferð sína til Chicago í byrjun mánaðar og þar með geta farþegar á Keflavíkurflugvelli valið á milli tveggja til þriggja flugfélaga á fleiri flugleiðum til Bandaríkjanna. 

chicago 2

WOW air fór jómfrúarferð sína til Chicago í byrjun mánaðar og þar með geta farþegar á Keflavíkurflugvelli valið á milli tveggja til þriggja flugfélaga á fleiri flugleiðum til Bandaríkjanna.  Það er flogið til 15 borga frá Keflavíkurflugvelli sem er meira úrval en farþegar á stærstu flugvöllum frændþjóðanna hafa úr að moða sé ferðinni heitið vestur um haf. Megin ástæðan fyrir þessum góðum samgöngum milli Íslands og Bandaríkjanna er sú staðreynd að bæði Icelandair og WOW air eru stórtæk í fólksflutningum milli N-Ameríku og Evrópu. Icelandair flýgur þannig reglulega til 11 bandarískra borga og WOW air til átta. Í haust bætist svo Tampa í Flórída við leiðakerfi Icelandair. Auk þess flýgur hið bandaríska Delta Air Lines hingað frá New York allt árið um kring og frá Minneapolis yfir sumarmánuðina. Farþegar á leið héðan til þessara tveggja borga hafa því úr að velja áætlunarferðum tveggja til þriggja flugfélaga og sömu sögu er að segja um flug til Boston og Washington, þó þotur WOW lendi reyndar við Baltimore flugvöll skammt frá höfuðborginni. Og fyrr í þessum mánuði bættist svo við samkeppni á fimmtu flugleiðinni þegar WOW air hóf flug þangað en Icelandair bætti þeirri borg við leiðakerfi sitt í fyrra en þá voru 28 ár liðin frá því að flugfélagið hafði síðast boðið upp á áætlunarferðir til Chicago.
Bæði Icelandair og WOW air hafa aukið umsvif sín umtalsvert í Bandaríkjunum síðustu misseri og sennilega eru meiri líkur en minni að fleiri borgir þar í landi bætist við dagskrá flugfélaganna á næsta ári.