Óljós tíðindi af fjárfestingum útlendinga í íslenskum hótelum

Hlutur eins ríkasta manns Alaska í væntanlegum kaupum á KEA hótelunum er minni en fyrstu fréttir hermdu og óljóst er hvort erlend hótelkeðja ætli að reka hótel í gamla sjónvarpshúsinu eða aðeins leigja íslenskum aðilum vörumerki sitt. Yfirvofandi hækkun á virðisaukaskatti og framtíð gistináttagjaldsins eru ekki einu spurningamerkin sem setja má við íslenska hótelmarkaðinn í dag.

hotelrum nik lanus

Hlutur eins ríkasta manns Alaska í væntanlegum kaupum á KEA hótelunum er minni en fyrstu fréttir hermdu og óljóst er hvort erlend hótelkeðja ætli að reka hótel í gamla sjónvarpshúsinu. Í lok júní bárust þær fréttir að auðkýfingur frá Alaska, Jonathan B. Roubini að nafni, væri að ganga frá kaupum á KEA hótelunum og þar með lyki hálfs árs söluferli á þessari þriðju stærstu hótelkeðju landsins. Kaupverðið var sagt um sex milljarðar króna í frétt Markaðarins og þar kom jafnframt fram að Roubini myndi, í gegnum fasteignafélagið JL Properties, kaupa 75 prósent í KEA hótelunum og fjórðungur yrði í höndum fjárfestingafélagsins Vörðu.
Þeir frammámenn í ferðaþjónustunni sem Túristi ræddi við í kjölfarið voru sammála um að þessi kaup Roubini yrðu líklega stærsta erlenda fjárfestingin í íslenskri ferðaþjónustu hingað til og vakti tímasetningin líka athygli viðmælenda Túrista. Um þessar mundir ríkir nefnilega nokkur óvissa á hótelmarkaðnum, m.a. vegna yfirvofandi hækkunar á virðisaukaskatti, þreföldunar á gistináttagjaldi í haust og styrkingu krónunnar. Íslenskir bankar munu líka vera tregir til að lána til hótelframkvæmda þessi misserin en helstu eigendur Keahótela eru Horn II, framtakssjóður í rekstri Landsbréfa, með 60% hlut, og félagið Tröllahvönn ehf. með 32% hlut.

Lánað fyrir stórum hluta

Túristi hefur ítrekað reynt að komast í samband við Roubini og aðra stjórnendur JL Properties til að ræða væntanlega þátttöku þeirra í íslenskri ferðaþjónustu og sýn þeirra á framtíð þessarar atvinnugreinar nú þegar farið er að hægja á vextinum. Skilaboðum Túrista hefur hins vegar aldrei verið svarað. Fulltrúi Íslandsbanka, sem sér um söluna, hefur heldur ekki viliað ræða stöðuna og Páll L. Sigurjónsson, hótelstjóri keðjunnar og einn meðeiganda, segist ekki geta tjáð sig um sölumálin. Í fyrradag sagði Morgunblaðið hins vegar frá því að í viðtali við Alaska Dispatch News hafi Roubini sagt að fréttaflutningurinn á Íslandi, af hugsanlegum kaupum hans á meirihluta í KEA hótelunum, hafi verið ótímabær þar sem þau eru ekki frágengin. Hann sagði jafnframt að hlutur hans í hugsanlegum kaupum yrði mun minni en fyrstu fréttir hermdu eða um fjórðungur og fjárfestingin næmi 6,5 milljónum dollara eða 680 milljónum íslenskra króna. Í frétt Alaska Dispatch News kemur fram að Pt Capital, annað fjárfestingafélag frá Alaska, ætli að taka þátt í kaupunum ásamt íslenskum fjárfestum og að heildarkaupverðið verði um 5,3 milljarðar króna (51 milljón dollara). Ekkert kemur fram um fjármögnun viðskiptanna en af fréttinni verður ekki annað ráðið en að helmingur kaupverðsins, um 2,7 milljarðar, verði fjármagnaður með lánsfé.
Athygli vekur að meðfjárfestir JL Properties er Pt Capital sem gerði tilraun til að kaupa allt hlutafé í símafyrirtækinu Nova í fyrra en endaði að lokum með helmingshlut.

Hver flytur í gamla sjónvarsphúsið?

Ef að líkum lætur mun þekkt alþjóðleg hótelkeðja opna sitt fyrsta hótel hér á landi í gamla sjónvarpshúsinu að Laugavegi 176 samkvæmt frétt Fréttablaðsins frá því í síðasta mánuði. Ekki kemur fram í fréttinni hvort erlenda hótelkeðjan ætli sér að reka hótelið eða hvort um sé að ræða sérleyfissamning. Þess háttar samningar eru venjan á íslenska markaðnum, þannig eru Hilton hótelin hér á landi í eigu Icelandair Hotels og 2 af 3 Carlson Rezidor hótelunum eru í eigu íslenskra aðila. Aðspurður segist Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita, ekki geta tjáð sig um hvers konar fyrirkomulag verður á rekstri hótelsins í gamla sjónvarpshúsinu.
Það er því ekki ljóst hvort eigendur erlendu keðjunnar ætli að hefja rekstur hóteli í gamla sjónvarpshúsinu eða aðeins leiga vörumerki sitt.