Fjölgun kanadískra ferðamanna snarstöðvast

Undanfarið ár hefur fjöldi ferðafólks frá Kanada á Íslandi tvöfaldast en í júní varð hins vegar samdráttur þrátt fyrir fleiri flugferðir og nýtt Íslandsflug Air Canada. Með aukinni umferð verður Keflavíkurflugvöllur sífellt betri samgöngumiðstöð fyrir farþega á leið milli Kanada og meginlands Evrópu.

kanada fani

Undanfarið ár hefur fjöldi ferðafólks frá Kanada á Íslandi tvöfaldast en í júní varð hins vegar samdráttur þrátt fyrir auknar flugsamgöngur og nýjar áætlunarferðir á vegum Air Canada hins til lands. Í júní voru hér 12.612 kanadískir ferðamenn og fækkaði þeim um 3,6 prósent frá sama tíma í fyrra samkvæmt talningu Ferðamálastofu. Samdrátturinn er lítill milli síðustu júnímánaða en þessi niðursveifla er í engum takti við þá miklu aukningu sem hefur verið í komum ferðafólks frá Kanada síðastliðið ár. En í maí í fyrra fóru Icelandair og WOW air jómfrúarferðir sínar til Montreal og á sama tíma hóf WOW flug til Toronto. Frá þeim tíma hefur fjöldi kandadískra túrista hér á landi tvöfaldast (98%) og suma mánuði hefur aukningin verið um þreföld. Í maí sl. dró hins vegar úr aukningunni og nam hún þá 22 prósentum en í nýliðnum júní fækkaði kanadíska ferðafólkinu hér á landi sem fyrr segir.

Íslandsflugi Air Canada vel tekið

Þessi samdráttur á sér stað á sama tíma og flugumferð milli Íslands og Kanada eykst því í júní fjölgaði áætlunarferðum milli landanna tveggja um 17 prósent samkvæmt talningum Túrista. Þar vegur þungt nýtt áætlunarflug Air Canada en þetta stærsta flugfélag Kanada mun í sumar fljúga hingað frá bæði Montreal og Toronto. Peter Fitzpatrick, talsmaður kanadíska flugfélagsins, segir í svari við fyrirspurn Túrista að Íslandsflugið hafi fengið góðar móttökur og greinilega sé mikill áhugi á að því meðal Kanadamanna sækja Ísland heim. Hann segir þó of snemmt að segja til um hvort Ísland verði hluti af vetraráætlun félagsins í nánustu framtíð.
Þess má þó geta að Air Canada styðst við minni gerð af Airbus þotum í áætlunarflugi sínu til Íslands en þær rúma aðeins 136 farþega á meðan íslensku flugfélögin nota stundum breiðþotur í Kanadaflug sitt.

Gistinóttunum fækkar

Þegar þróunin í fjölda gistinótta Kanadabúa á íslenskum hótelum er skoðuð kemur í ljós að þeim hefur farið fækkandi í ár þrátt fyrir mikla fjölgun ferðamanna frá Kanada. Túristi hefur áður bent á þetta ósamræmi en til að mynda rúmlega þrefaldaðist fjöldi kanadískra ferðamanna hér á landi í febrúar en gistinóttum þeirra á íslenskum hótelum fækkaði um nærri fimmtung í sama mánuði. Hafa ber í huga að hjá Hagstofunni eru aðeins til tölur yfir gistingar á hótelum í ár en ekki í annarri tegund gistingar og aukin ásókn í heimagistingu gæti skýrt muninn að einhverju leyti. En eins og sjá má á súluritinu hér fyrir neðan þá hefur þróunin í komum Kanadabúa til Íslands verið allt önnur en kaupum þeirra á hótelgistingu hér á landi.

Mæla með millilendingu á Keflavíkurflugvelli

Í vetur hyggst Icelandair auka umsvifin í Kanada og fljúga allt árið um kring til Vancouver. Þar með verður ennþá fýsilegra fyrir íbúa Kanada að fljúga til meginlands Evrópu með millilendingu á Keflavíkurflugvelli en möguleikar á þess háttar tengingu eru nú þegar mjög miklir. Í fyrramálið koma til að mynda sjö farþegaþotur frá Kanada og geta farþegarnir flogið í nánast beinu framhaldi til tuga áfangastaða í Evrópu. Vinsælar flugbókunarsíður finna því í auknum mæli flug milli Kanada og Evrópu með stuttu stoppi í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og eru valkostirnir ekki aðeins bundnir við flug með Icelandair eða WOW air alla leið. Þannig mælir Kayak, ein vinsælasta flugleitarsíða í heimi, með því að sá sem ætlar að fljúga frá Toronto til Óslóar á morgun fljúgi hingað með Air Canada og stuttu síðar með Norwegian til Noregs. Ef ferðinni er hins vegar heitið frá Montreal til Helsinki á sunnudaginn þá er ódýrasti kosturinn, samkvæmt Kayak, flug með WOW frá Montreal sem lendir á Keflavíkurflugvelli klukkan fimm á mánudagsmorgni og svo áfram til höfuðborgar Finnlands klukkan hálf átta með Icelandair.

Sjálftengifarþegar taldir sem ferðamenn

Ef farþegarnir í dæmunum hér fyrir ofan ferðast með meira en handfarangur þurfa þeir að sækja töskurnar við komuna til Íslands og innrita sig svo í tengiflugið. Í framhaldinu fer farþeginn í gegnum vopnaleit og er þá talinn sem erlendur ferðamaður á Íslandi, jafnvel þó hann hafi aðeins stoppað í Leifsstöð í tvo til þrjá klukkutíma. En líkt og Túristi hefur fjallað um eru líkur á að fjölgun þessara sjálftengifarþega hafi aukist töluvert á Keflavíkurflugvelli. Það kann að skýra að einhverju leyti afhverju þróunin í fjölda gistinótta sumra þjóða á íslenskum hótelum er í litlu samræmi við fjölda ferðamanna frá viðkomandi landi, til dæmis frá Kanada.