Umsvif bandaríska fjárfestingasjóðsins Pt Capital Advisors verða umtalsverð hér á landi ef áform um kaup á þriðju stærstu hótelkeðju landsins ganga eftir. Fyrir mánuði síðan greindi Markaðurinn frá því að auðjöfurinn Jonathan B. Roubini frá Alaska hygðist kaupa 75 prósent hlut í KEA hótelunum. Þessar fréttir leiðrétti Roubini nýverið í viðtali við Alaska Dispatch News og sagðist aðeins vera eftir fjórðungshlut í þessari þriðju stærstu hótelkeðju Íslands og heildarkaupverðið næmi um 5,3 milljörðum (51 milljón dollara). Bætti hann því við að fjárfestingasjóðurinn Pt Capital Advisors, sem einnig er frá Alaska, myndi jafnframt kaupa hlut í KEA hótelunum og það staðfestir Hugh Short, stjórnarformaður og forstjóri sjóðsins, í svörum við fyrirspurn Túrista. Segir Short að fyrirtæki hans stefni að helmingshlut í hótelkeðjunni.
Þar með yrðu þrír fjórðu hennar í eigu bandarískra fjárfesta en Íslendingar munu vera að skoða kaup á fjórðungshlut samkvæmt fyrrnefndri frétt Alaska Dispatch News. Af henni að dæmi þá verður helmingur kaupverðsins fjármagnaður með lánsfé líkt og Túristi greindi frá.
Segjast með mikla reynslu af ferðaþjónustu
Þetta verður ekki fyrsta fjárfesting Pt Capital Advisors hér á landi því fyrirtækið keypti allt hlutafé í símafyrirtækinu Nova síðastliðinn vetur af Novator. Þau kaup gengu hins vegar ekki eftir og enduðu með því að Novator, ásamt stjórnendum Nova, hélt eftir helmingshlut á móti Pt Capital. Í tilkynningu þar sem þessar breytingar voru kynntar kom fram að bandaríski kaupandinn teldi mikilvægt að vera með íslenskan samstarfsaðila sem hefði reynslu af farsímarekstri. Aðspurður um reynslu Pt Capital af ferðaþjónustu segir Hugh Short að hún sé víðtæk en hann hefur ekki orðið við beiðni Túrista um nánari upplýsingar um á hverju sú reynsla byggir.
Skattahækkanir hafa kælandi áhrif
Í haust þrefaldast gistináttagjaldið og fjármálaráðherra hefur boðað tvöfalt hærri virðisaukaskatt á ferðaþjónustu á næsta ári. Aðspurður um þessar auknu opinberu álögur telur Hugh Short, forstjóri Pt Capital, að þær muni hafa kælandi áhrif á íslenskt viðskiptalíf. „Ferðaþjónustan er mikilvæg atvinnugrein enda fjöldi Íslendinga sem hefur lifibrauð sitt af henni. Skattastefna sem væri ferðaþjónustunni vinsamleg myndi efla áframhaldandi vöxt hagkerfisins.“ Short bætir því við að Pt Capital muni halda áfram að leita ákjósanlegra fjárfestingakosta á Íslandi og annars staðar á norðurslóðum en fyrirtækið sérhæfir sig í fjárfestingum á því svæði.
Erlend hótelfyriræki skoðuðu kaup
KEA hótelin voru boðin til á sölu í ársbyrjun og samkvæmt heimildum Túrista skoðuðu nokkur erlend hótelfyrirtæki möguleikan á kaupum en verðhugmyndir þessara aðila munu hafa verið nokkru lægri en þess hóps sem nú er að ganga frá kaupum. Kaupsamningurinn, mun samkvæmt því sem næst verður komist, aðeins fela í sér kaup á rekstri KEA hótelanna en ekki fasteignunum sem hýsa gististaðina.
TENGDAR GREINAR: ÓLJÓS TÍÐINDI AF ERLENDUM FJÁRFESTUM Í ÍSLENSKUM HÓTELUM