Útlendingar taldir sem Íslendingar

Vægi innlendra hótelgesta er miklu lægra hér á landi en á hinum Norðurlöndunum. Nú eru uppi vísbendingar um að íslenskir hótelgestir séu enn færri en talningar hafið gefið til kynna.

hotelrum nik lanus

Gistinætur á íslenskum hótelum námu nærri 3,9 milljónum í fyrra og þar af keyptu Íslendingar sjálfir um 400 þúsund nætur. Til einföldunar má því segja að í tíunda hverju hótelherbergi hér á landi gisti Íslendingur. Í Danmörku standa heimamenn undir um sex af hverjum tíu hótelnóttum og í Svíþjóð lætur nærri að þrír af hverjum fjórum hótelgestum séu Svíar. Fámennið hér á landi er líklegasta skýringin á þessum mismun en nú telur Hagstofan að fjöldi íslenskra hótelgesta, á íslenskum hótelum, kunni að vera ofmetinn. Þetta kemur fram á heimasíðu Hagstofunnar þar sem gistináttatölur fyrir júní eru kynntar en samkvæmt þeim fækkaði íslenskum gestum um 15 prósent í síðasta mánuði frá sama tíma í fyrra. Ástæðan fyrir þessum mikla samdrætti, samkvæmt Hagstofunni, er sú að nú hafi verið tekið upp breytt verklag við mat á áreiðanleika flokkunar gistinátta eftir þjóðernum. Og það hafi valdið breytingu á hlutfallinu milli erlendra og íslenskra gesta með fyrrgreindum afleiðingum. „Þessi fækkun íslenskra gistinátta milli ára skýrist að hluta af því að hlutfall þeirra gæti hafa verið ofmetið í fyrri tölum.“

Fleiri Íslendingar en eðlilegt getur talist

Upplýsingar um fjölda gistinótta eru lykiltölur í ferðaþjónustu og í svari Hagstofunnar, við fyrirspurn Túrista um ofangreint ofmat, segir að í innsendum gögnum frá stöku gististöðum hafi komið í ljós frávik í hlutfalli íslenskra og erlendra gesta miðað við aðra gististaði, sömu gerðar, á sama svæði. „Sérstaklega í þá áttina að skilað er inn hærra hlutfalli af íslenskum gistinóttum en telja má eðlilegt í samanburðinum og í sumum tilvikum má greina tímapunkt þar sem skyndileg breyting verður í hlutfalli þjóðerna í innsendum gögnum frá gististað.“ Í svarinu segir jafnframt að fyrst hafi verið tekið eftir þessu mynstri fyrir nokkrum mánuðum og fylgst hafi verið þessu með síðan þá og gistináttatölur síðustu tveggja mánaða hafi því verið enduráætlaðar. Hagstofan hefur jafnframt haft samband við viðkomandi gististaði til að finna leiðir til að bæta skilin á tölunum. „Í þeim samskiptum hefur komið í ljós að í sumum tilvikum er sjálfvalið í bókunarkerfi viðkomandi hótels að þjóðerni sé íslenskt ef ekkert annað er valið.“
Hagstofan ítrekar að þær gistináttatölur sem gefnar hafi verið út í ár séu bráðabirgðatölur og lokatölur verði ekki birtar fyrr en í lok vetrar 2018, eða fyrr ef ástæða er til.

Þjóðernið út frá heimilisfangi ferðaskrifstofu

Í samtölum Túrista við aðila í hótelgeiranum síðustu misseri hafa komið fram efasemdir um að gistináttatölur Hagstofunnar gefi rétta mynd af umsvifunum á hótelmarkaðnum. Ein ástæða sem nefnd hefur verið er sú að þegar íslensk ferðaskrifstofa pantar herbergi fyrir hóp af erlendum ferðamönnum þá eru allir gestirnir færðir til bókar sem Íslendingar þar sem heimilisfang ferðaskrifstofunnar er hér á landi. Það geti nefnilega verið of tímafrekt að breyta þjóðerni hvers og eins gestar í gistináttaskráningunni. Einnig mun það þekkjast að eigendur gististaða gefi sér ekki tíma í að fylla út gistináttaskýrslur.