2000 Íslendingar til útlanda á dag

Nýliðinn júlí er næst stærsti ferðamánuðurinn frá upphafi þegar litið er til utanlandaferða Íslendinga. Landinn fer í fleiri ferðir á ári og vill búa á betri hótelum en áður.

flugvel john cobb

Það er ekkert lát á ferðagleði Íslendinga því í júlí flugu 62.483 íslenskir farþegar frá Keflavíkurflugvelli eða um tvö þúsund á hverjum degi. Aðeins einu sinni hafa þeir verið fleiri í einum mánuði og það var í júní í fyrra þegar landinn fjölmennti til Frakklands til að styðja karlalandsliðið í Evrópukeppninni í knattspyrnu. Íslensku farþegarnir voru litlu færri í júní síðastliðnum og apríl og maí komast einnig á lista yfir þá 10 mánuði sem Íslendingar hafa ferðast mest til útlanda eins og sjá má á grafinu hér fyrir neðan sem byggir á talningum Ferðamálastofu.

Biðja um betri hótel

Í júlí voru að jafnaði farnar um 100 áætlunarferðir á dag frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar samkvæmt talningu Túrista og miðað við fjölda íslenskra farþega má segja að landinn hafi fyllt um níundu hverju farþegaþotu sem tók á loft frá Keflavíkurflugvelli í síðasta mánuði. Hlutfallið var álíka í júní og forsvarsmenn ferðaskrifstofanna eru sammála um að veðurfarið á fyrri helmingi sumars og sterk króna ýti undir ferðagleðina. Ferðamynstrið hefur líka breyst og Íslendingar fara orðið í fleiri ferðir segja þær Hugrún Hannesdóttir hjá Bændaferðum og Þórunn Reynisdóttir hjá Ferðaskrifstofu Íslands. Og fólk leyfir sér líka meira þegar það er á ferðinni og kýs betri hótel. „Í stað þess að spyrja, áttu eitthvað ódýrara þá er frekar spurt um eitthvað betra,“ segir Guðrún Sigurgeirsdóttir hjá Vita.