369 milljónir túrista fyrstu fjóra mánuði ársins

Það eru ekki bara Íslendingar sem eru meira á ferðinni því á heimsvísu fjölgaði ferðamönnum um 6 prósent. Norður-Evrópu nýtur áfram mikilla vinsælda.

ferdamenn cataratas do iguacu brazil henrique felix

Hér á landi fölgaði ferðafólki um rúmlega helming á fyrsta þriðjungi ársins samkvæmt talningu Ferðamálastofu og nam fjöldin nærri 606 þúsundum. Á heimsvísu voru ferðamennirnir hins vegar 369 milljónir á þessu tímabili sem er aukning um 21 milljón frá sama tíma í fyrra samkvæmt nýrri úttekt ferðamálastofnunnar Sameinuðu þjóðanna. Hlutfallslega nemur viðbótin sex af hundraði og líkt og síðustu ár er vöxturinn einna mestur í norðurhluta Evrópu eða 9 prósent. Þar leggur Ísland sitt að mörkum eins og tölurnar hér að ofan sýna þó vissulega sé íslenski markaðurinn lítill í evrópskum samanburði.

Af tölunum að dæma þá hefur ferðaþjónustan í löndum eins og Frakklandi og Belgíu náð sér á strik en hryðjuverk drógu úr áhuga ferðafólks á þessum svæðum í fyrra. Og sömu sögu er að segja af norðurhluta Afríku þar sem túristum fjölgaði um nærri fimmtung í janúar til apríl. Viðbótin í Suður-Ameríku var tvöfalt meiri en í Norður-Ameríku (3%) og þar gætir kannski áhrifa Donald J. Trump, Bandaríkjaforseta, en ferðafrömuðir vestanhafs hafa sagt að aðgerðir forsetans og orðræða muni draga úr áhuga útlendinga á að heimasækja Bandaríkin.

Íslendingar á ferðinni

Það eru ekki aðeins fleiri sem koma til Íslands nú en áður því ferðagleði Íslendinga sjálfra er í hæstu hæðum þessi misserin. Þannig flugu um 175 þúsund Íslendingar frá Keflavíkurflugvelli fyrstu fjóra mánuði ársins og ef miðað við þann fjölda þá hafa Íslendingar sjálfir staðið undir um 0,05 prósent af ferðamannastraumnum í heiminum. Hlutfallið er þó eitthvað hærra enda margir Íslendingar búsettir út í heimi og fara því ekki um Keflavíkurflugvöll þegar þeir fara til útlanda. Á móti kemur að Íslendingar búsettir út í heimi eru taldir sem heimamenn í talningu Ferðamálastofu á Keflavíkurflugvelli.