Airberlin verðleggur sig út af íslenska markaðnum

Það lítur út fyrir að forsvarsmenn Airberlin séu gefa Íslandsflugið upp á bátinn. Þeir bjóða nú helgarflug til Berlínar á tvöfalt til þrefalt hærra verði en Icelandair og WOW air.

Flugmiði með Airberlin héðan til Berlínar síðustu helgina í október kostar í dag rúmar 16 þúsund krónur en helgina eftir er farmiðinn 60 þúsund krónum dýrari. Þá sömu helgi er hægt að fá far með Icelandair til Berlínar á nærri 29 þúsund krónur og um 25.500 kr. með WOW air en þar bætist 8 þúsund króna farangursgjald við. Helgarflugið með íslensku flugfélögunum er því ríflega helmingi ódýrara en hjá Airberlin. Líklegasta ástæðan fyrir því að þýska flugfélagið verðleggur sig svona hátt er til að koma í veg fyrir að fleiri bóki farmiða á meðan óvissa sem ríkir um framhaldið hjá fyrirtækinu en forsvarsmenn þess sóttu um greiðslustöðvun fyrir tveimur vikum síðan. Strax í kjölfarið tilkynnti Icelandair áform sín um að hefja flug til höfuðborgar Þýskalands og WOW air bætti við ferðum þangað. En frá Berlín hefur Airberlin boðið upp á flug til fimm bandarískra borga og eru þær allar hluti af leiðakerfi WOW air á meðan Icelandair flýgur til tveggja.

Réttindi farþega mismunandi

Auk áætlunarferða til Berlínar þá býður Airberlin upp á reglulegar ferðir héðan til Dusseldorf í vetur og er eina flugfélagið á þeirri flugleið yfir veturinn. Verðlagningin á farmiðunum á þeirri flugleið er þó með svipuðum hætti og í Berlínarfluginu því í dag kostar farið frá Keflavíkurflugvelli til Dusseldorf um 30 þúsund krónur fram til loka október en rýkur upp í 140 þúsund krónur frá og með byrjun nóvember. En þá hefst einmitt vetraráætlun flugfélaganna og af farmiðaverðinu að dæma þá munu líklega fáir bóka far með Airberlin, til og frá Íslandi,  í vetur eins og staðan er í dag.
Þeir sem þegar eiga pantað sæti með Airberlin verða hins vegar að bíða og sjá hvað verður með framhaldið hjá þessu næststærsta flugfélagi Þýskalands en réttindi farþega gjaldþrota flugfélaga eru mismunandi eftir því hvar farmiðarnir voru keyptir. Þeir sem keyptu miðana sem hluta af pakkaferð eru á ábyrgð viðkomandi ferðaskrifstofu á meðan farþegar sem bókuðu aðeins flug þurfa að gera kröfu í þrotabú flugfélagsins eða leita til greiðslukortafyrirtækis í von um endurgreiðslu.
Líkt og Túristi greindi frá þá þarf Airberlin núna að borga lendingargjöld sín á Keflavíkurflugvelli eina viku fram í tímann.

Koma með tugi þúsunda ferðamanna

Ísland hefur verið hluti af leiðakerfi Airberlin allt frá árinu 2006 og flogið hingað frá nokkrum þýskum borgum. Auk þess hefur dótturfélagið FlyNiki boðið upp á áætlunarflug milli Íslands og Vínar á sumrin. Síðustu þrjá mánuði hafa ferðir félaganna þó verið aðeins færri en sumarið 2016 samkvæmt talningum Túrista en þó má gera ráð fyrir að samtals hafi 25 til 35 þúsund erlendir ferðamenn nýtt sér flug Airberlin og FlyNiki til Keflavíkurflugvallar í sumar.