„Eini flugvöllurinn sem er raunverulega í London“

Í lok október bætist Ísland við leiðakerfi London City flugvallar og forsvarsmenn hans segja staðsetningu hans mikinn kost. 

british airways londoncity

Breska flugfélagið British Airways bætir umtalsvert við Íslandsflug sitt í vetur. Félagið mun þannig fljúga tvisvar á dag hingað frá Heathrow og jafnframt bjóða upp á tvær ferðir í viku frá London City flugvelli líkt og Túristi greindi frá. Þar með geta farþegar hér á landi valið um áætlunarferðir til fimm flughafna á Lundúnarsvæðinu og forsvarsmenn London City flugvallar sjá ótvíræða kosti við að velja nýliðann í hópnum.

„Staðsetningin er mjög hentug fyrir fólk á leið til London frá Reykjavík því London City er eini flugvöllurinn sem er raunverulega í London,“ segir Richard Hill, yfirmaður viðskiptasviðs London City flugvallar, í samtali við Túrista. „Héðan tekur aðeins um 20 mínútur að komast inn miðborgina með almenningssamgöngum og korteri eftir lendingu geta farþegarnir verið komnir að útidyrum flugstöðvarinnar eða upp í lest. Ferðalagið tekur því styttri tíma og því gefst meiri tími til að upplifa London.“

Á sama hátt gengur innritunin hratt fyrir sig og segir Hill að í flestum tilfellum sé nóg fyrir farþega að mæta klukkutíma fyrir brottför.

Íslandsflug fyrir fólk á leið í frí

Vegna staðsetningar hefur London City flugvöllur verið vinsæll meðal fólks í vinnuferðum og segir Richard Hill segir sá hópur sé ríflega helmingur þeirra sem nýti sér flugvöllinn. Til samanburðar er hlutfall viðskiptaferðalanga innan við þriðjungur á Heathrow flugvelli. „Engu að síður eru fyrsta flokks ferðamannastaðir líka mikilvægur hluti af starfseminni, héðan flýgur British Airways t.d. til vinsælla staða eins og Ibiza, Mallorca, Skiathos, Mykonos og Flórens. Við teljum að flugið héðan til Reykjavíkur, sem er þekkt fyrir iðandi og margbrotið næturlíf og stórkostlegt landslag, muni líka njóta vinsælda hjá Lundúarbúum sem eru í leit að helgarferð eða vilja fara í lengra ferðalag um Ísland.“ Og miðað við fréttatilkynningu frá British Airways þá reikna forsvarsmenn félagsins með því að flugið frá London City verði fyrst og fremst nýtt af fólki á leið í frí en ekki vinnuferð.