Samfélagsmiðlar

Ferðamálaráðherra: Mikilvægt að ofmeta ekki skekkjuna

Það er þýðingarmikið að fá mat á fráviki í talningu á fjölda ferðamanna sem fer um Keflavíkurflugvöll segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála. Hún segist ekki geta tekið undir túlkun Samtaka ferðaþjónustunnar á niðurstöðum nýrrar könnunar á brottfararfarþegum.

Fimm af hverjum hundrað ferðamönnum hér á landi fara aldrei út úr Leifsstöð, 6% fer út fyrir flugvallarsvæðið en gistir ekki yfir nótt og 3% ferðamannanna eru útlendingar sem búsettir eru hér á landi. Þetta sýna niðurstöður könnunar Isavia og Ferðamálastofu sem framkvæmd var nýverið í kjölfar umræðu sem skapaðist í kringum umfjöllun Túrista í vor um hugsanlegt ofmat á ferðamannafjöldanum. Sú tilgáta byggði á því að farþegar sem aðeins skipta um flugfélag á Keflavíkurflugvelli eru taldir sem ferðamenn í talningu Ferðamálastofu, en vísbendingar eru um að þessum sjálfskiptifarþegum hafi fjölgað síðustu misseri.
Þegar stærð þessara þriggju fyrrnefndu farþegahópa er heimfærð upp á ferðamannaspá Isavia fyrir þetta ár kemur í ljós að af þessum rúmu 2,2 milljónum ferðamanna, sem gert er ráð fyrir í ár, þá eru 112 þúsund flugfarþegar sem skipta aðeins um flugvél, 134 þúsund fara út fyrir flugstöðina yfir dagspart og um 67 þúsund eru útlendingar sem eru búsettir eru á landinu.

Skekkjan ekki ný af nálinni

„Það hefur alltaf legið fyrir að fjöldi ferðamanna væri ofmetinn og sá fyrirvari hefur alltaf verið gerður við tölurnar. Skekkjan er því alls ekki ný af nálinni. En að sjálfsögðu er þýðingarmikið að fá þetta mat á umfangi hennar og ég mun leggja áherslu á að þetta verði mælt áfram,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, aðspurð um niðurstöðurnar, í svari til Túrista. „ Á sama hátt og það er mikilvægt að ofmeta ekki fjölda ferðamanna er líka mikilvægt að ofmeta ekki skekkjuna. Ég get því ekki tekið undir með Samtökum ferðaþjónustunnar þegar þau segja að skekkjan sé „að minnsta kosti“ sú sem þessi könnun sýnir. Hún gæti allt eins verið eitthvað minni, og engin rök sem hníga að því að hún sé frekar meiri en minni. Eðlilegast er að miða bara við þá tölu sem mælingin sýnir. Ég ítreka að það er mikilvægt að halda áfram að auka gæði og nákvæmni mælinganna og ég mun ræða það við Ferðamálastofu, ISAVIA og SAF.“

Fyrirvarinn vandfundinn

Það er hins vegar ekki að sjá að þessi fyrirvari, sem ráðherra nefnir, hafi alltaf verið gerður við tölur um fjölda ferðamanna á landinu. Engir fyrirvarar eru til að mynda í svari Þórdísar Kolbrúnar á Alþingi í sumar  þar sem hún var beðin um upplýsingar um mismuninn á áætluðum og raunverulegum fjölda ferðamanna. Þar birtir ráðherra talningar Ferðamálastofu án þess að minnst sé að fjöldinn sé ofmetinn. Í nýrri skýrslu OECD eru þessar tölur líka notaðar án athugasemda, að því virðist, og í tilkynningu frá Ferðamálastofu, um fjölda ferðamanna í fyrra, kemur ekkert fram um að skekkjur séu í talningunni. Það er hins vegar gert annars staðar á vef Ferðamálastofu og þá vísað í þessa nýju könnun sem gerð var um síðustu mánaðarmót. Í ferðamannaspá Isavia fyrir lok síðasta árs var heldur ekki gert grein fyrir þessu ofmati og það er heldur ekki að sjá að greiningardeildir bankanna hafi gert ráð fyrir þessari skekkju í sínum skýrslum um ferðaþjónustu. Þannig spáir Íslandsbanki 2,3 milljónum ferðamanna hér í ár og er þar horft til úthlutunar á lendingarleyfum á Keflavíkurflugvelli. Miðað við skekkjurnar sem nú eru komnar fram verða ferðamennirnir tæplega 2 milljónir í ár. Það er gildir þó líklega um ferðamannatalninguna, eins og margar aðrar talningar, að skekkjumörkin eru einhver en þeim hefur ekki verið haldið á lofti líkt og dæmin sanna.

Dagsferðamenn í flugi taldir en ekki úr skipum

Það er reyndar mismunandi hvernig ferðamenn eru taldir. Hefðbundna skilgreining er sú að ferðamaður er sá sem gistir í að minnsta kosti eina nótt. Þeir sem aðeins dvelja yfir daginn eru dagsferðamenn og farþegar skemmtiferðaskipa falla til að mynda í þann flokk. Ferðamálastofa hefur til að mynda haft þann háttinn á að taka farþega skipanna ekki með í heildarferðamannafjöldann. Það sama ætti þá að eiga við um þá farþega sem aðeins skipta um flugfélag á Keflavíkurflugvelli en dvelja ekki á landinu, þ.e. 11% af ferðamannafjöldanum miðað við niðurstöður könnunarinnar. Aðspurð um þessa misræmi sagði Ólöf Ýrr Atladóttir, í svari til Túrista, að vissulega valdi það ónákvæmni að vera með dagsferðamenn í greiningum á fjölda almennra ferðamanna.
Hins vegar má, samkvæmt upplýsingum frá ferðamálastofnun Sameinuðu þjóðanna, telja dagsferðamenn með í tölum til stofnunarinnar. En útlendinga, sem búsettir eru á landinu, á ekki flokka sem ferðafólk samkvæmt reglum Sameinuðu þjóðanna en sem fyrr segir var hlutfall þess hóps 3% í könnun Isavia og Ferðmálastofu.

Það jákvæða við ofmatið

Talning ferðamanna á Keflavíkurflugvelli hefur verið sú stærð sem oft er notuð til að mæla umsvifin í ferðaþjónustunni og ráðherra málaflokksins telur að þrátt fyrir skekkjuna í tölunni þá hafi vöxtur greinarinnar verið rétt metinn. „Við opinbera stefnumótun er það auðvitað ekki síst þróunin á milli ára, þ.e.a.s. vöxturinn, sem skiptir máli. Og hann hefur verið rétt metinn, að því gefnu að skekkjan hafi verið álíka mikil á hverju ári. Það er því ekki eins og þessi skekkja setji alla stefnumótun í uppnám. Stærsta spurningin hefur snúist um þessa svokölluðu „sjálftengifarþega“, sem fara aldrei út af flugvellinum en þurfa samt að tékka sig út og aftur inn af því að þeir fljúga með tveimur ólíkum flugfélögum. Gera má ráð fyrir að þessi hópur hafi stækkað á undanförnum misserum með auknu flugframboði ólíkra flugfélaga, en könnunin sýnir að hann er þó ekki nema 5%,“ bætir Þórdís Kolbrún við. „Góðu fréttirnar eru þær, að ef ofmatið hefur verið að aukast þá þýðir það líka að meðaldvalartími hvers ferðamanns hefur ekki verið að styttast eins mikið og tölur hafa bent til. Hið sama gildir um meðaleyðslu hvers ferðamanns. Hvort tveggja er þá í betra horfi en við héldum: meðaldvalartíminn lengri og meðaleyðslan meiri.“

Airbnb veldur óvissu

Upplýsingar um gistinætur útlendinga eru líka lykiltölur í ferðaþjónustu og telur ferðamálaráðherra að fréttum af meðaldvalartíma beri að taka með miklum fyrirvara vegna umsvifa Airbnb. „Líklega er stærsta skekkjan varðandi umfang ferðaþjónustunnar sú staðreynd að gistináttatölur ná ekki utan um Airbnb nema að mjög takmörkuðu leyti. Sterkar vísbendingar eru um að gistinóttum á Airbnb hafi fjölgað gríðarlega. Fréttum um meðaldvalartíma, sem taka ekki Airbnb með í reikninginn, ber því að taka með miklum fyrirvara,“ segir ráðherra. En þess má geta að samkvæmt gögnum Airbnb, sem Túristi hefur undir höndum, þá seldi fyrirtækið 1,3 milljón gistinátta hér á landi í fyrra. Til samanburðar voru gistinætur á íslenskum hótelum 3,9 milljónir á síðasta ári.

 

Nýtt efni

Fyrir viku hélt Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, fund með helstu ráðgjöfum sínum, innanríkisráðherra og fulltrúum veðurstofu og almannavarna landsins til að ræða viðbrögð við hitatíðinni framundan, frá apríl til júní. Sérstaklega er talin ástæða nú til aðgæslu vegna áhrifa loftslagsbreytinga á veðurfar. Verulegar líkur eru taldar á að hiti fari fram úr venjulegum hámarkshita í …

Frumvarp um að veita þúsundum óskráðra innflytjenda á Spáni heimild til landvistar og atvinnu er nú til meðferðar í fulltrúadeild spænska þingsins (Congreso de los Diputados) eftir að 700 þúsund manns höfðu undirritað áskorun um setningu laga þessa efnis. Nærri 900 samtök studdu þessa áskorun um að breyta stöðu óskráðra útlendinga í landinu.  Ef fyrirliggjandi …

Farþegar á leið til New York frá Róm, París, Ósló, London, Berlín eða Aþenu geta flogið beint með norska lágfargjaldaflugfélaginu Norse Atlantic. Í mörgum tilfellum er félagið með ódýrustu sætin á þessum leiðum og keppir því við íslensku flugfélögin um þá farþega sem vilja komast á milli fyrir sem minnst og setja það ekki fyrir …

„Tilgangurinn er að sýna hvað höfuðborgarsvæðið hefur að bjóða í ferðaþjónustu og byggja upp þekkingu meðal þeirra sem í henni starfa," sagði Inga Hlín Pálsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins, þegar FF7 hitt hana skömmu eftir að sýningin HITTUMST var opnuð í Hafnarhúsinu í dag. Nokkur hópur var þegar kominn að skoða það sem í boði er …

Hilton-hótelkeðjan hefur gert samning um byggingu og rekstur tveggja hótela hér á landi í samstarfi við Bohemian Hotels ehf. Stefnt er að því að opna það fyrra við Hafnarstræti á Akureyri næsta sumar en þar verða 70 herbergi og mun hótelið bera heitið Skáld Hótel Akureyri. Seinna hótelið opnar við Bríetartún, við hlið Frímúrarahallarinnar í …

Flugfélagið Play hefur hafið miðasölu á flugi til Cardiff í Wales og er þetta gert vegna mikils áhuga á leikjum íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu gegn Wales í Þjóðadeildinni sem fara fram næstkomandi haust.  Þetta kemur fram í tilkynningu. Íslenska liðið mætir liði Wales á Laugardalsvelli 11. október en liðin mætast aftur á heimavelli Wales í Cardiff …

Í þeirri viðleitni að hemja troðningstúrisma hafa borgaryfirvöld í Amsterdam ákveðið að leyfa ekki byggingu fleiri hótela í miðborginni. Þrátt fyrir að kröfur hafi verið hertar í borginni gagnvart nýbyggingum hótela þá eru yfir 20 hótel nú á teikniborðinu, segir NL Times. Takmörkunin nær auðvitað ekki til þeirra hótela sem þegar hafa verið samþykkt. Túristar …

Como-vatn á Langbarðalandi dregur til sín um 1,4 milljónir ferðamanna á ári - og í glæsihúsum við vatnið hefur margt frægt og ríkt fólk athvarf. Meðal þeirra sem eiga hús þarna eru George Clooney, Donnatella Versace og Richard Branson. Kannski er það ekki síst efnaða fólkið sem orðið er þreytt á átroðningi - að venjulegir …