Ferðamenn oftaldir um 38 þúsund í júlí

Skekkjan í talningu á fjölda ferðamanna á Keflavíkurflugvelli reyndist ekki lítil eins og Isavia og Ferðamálastofa gerðu ráð fyrir. Miðað við fjölda sjálftengifarþega í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í júlí má gera ráð fyrir að ferðamannafjöldinn hér á landi hafi verið ofmetinn um nokkur hundruð farþega á degi hverjum í ár.

Er fjöldi ferðamanna á Íslandi ofmetinn? Þessa spurningu bar Túristi upp í vor og vísaði þar til þess að farþegar sem aðeins millilenda á Keflavíkurflugvelli og skipta þar um flugfélag eru taldir sem ferðafólk hér á landi í talningu Ferðamálastofu. Jafnvel þó fólkið fari aldrei út úr Leifsstöð. Fréttaskýring Túrista um málið vakti það mikið umtal að Ferðamálastofa og Isavia sendu frá sér tilkynningu þar sem segir m.a. að það sé mat Isavia að farþegar sem aðeins hafa viðdvöl í landinu til skemmri tíma, eða tengja sjálfir á milli flugfélaga, hafi í gegnum tíðina ekki verið að valda skekkju í þjóðernatalningunum svo neinu nemi.

Isavia lét þó gera könnun á því hvort tilgáta Túrista ætti við rök að styðjast og í gær birti Ferðamálastofa niðurstöðuna. Í ljós kom að 11% brottfararfarþega nota flugvöllinn eingöngu til millilendingar eða stoppa yfir daginn en gista þó ekki. Þá voru 3% brottfararfarþega erlendir ríkisborgarar sem búa á Íslandi til skemmri eða lengri tíma. Miðað við þessar niðurstöður þá var fjöldi svokallaðra sjálftengifarþega 30 þúsund í júlí og 8 þúsund útlendingar, búsettir hér á landi, flugu út. Erlendir ferðamennirnir á Íslandi í síðasta mánuði voru því ekki 272 þúsund eins og Ferðamálastofa gaf út heldur 234 þúsund. Í gistinóttum talið nemur þetta ofmat á ferðamönnum um 146 þúsund nóttum í síðasta mánuði og er þá miðað við meðaldvalartíma útlendinga hér á landi í júlí í fyrra. Gistináttatölur fyrir júlí sl. liggja ekki fyrir.

Verða að gista í landinu

Ferðamenn eru almennt skilgreindir sem þeir sem dvelja a.m.k. eina nótt í viðkomandi landi. Þetta er sú skilgreining sem ferðamálaráð Sameinuðu þjóðanna notar og hana má líka finna í hugtakalista á heimasíðu Ferðamálastofu. Engu að síður birti Ferðamálastofa niðurstöður könnunarinnar í gær með því að segja hlutfall ferðamanna sem aðeins millilenda á Keflavíkurflugvelli vera 5 prósent. Miðað við ofangreinda skilgreiningu þá er vægi hópsins hins vegar 11% því 6% svarenda sögðust hafa millilent á landinu en þó farið út af flugvallarsvæðinu á milli ferða. Aðspurð út í þetta misræmi segir Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri, í svari til Túrista, að gestir sem koma og fara sama daginn séu skilgreindir sem almennir dagsferðamenn og telur hún æskilegt að geta haldið fjölda þeirra sérstaklega til haga, líkt og gert er með farþega skemmtiferðaskipa. „Vissulega veldur það ónákvæmni að vera með þessa gesti í greiningum á fjölda almennra ferðamanna og því upplýsandi að fá með þessari könnun vísbendingu um hversu stór þessi hópur getur verið í tölunum. Það er hins vegar rétt að árétta að þessir farþegar hafa verið taldir með frá upphafi.”

Andvaraleysi að kanna ekki fyrr

Ólöf Ýrr bætir því við að talningin stofnunarinnar á Keflavíkurflugvelli hafi náð til allra brottfara og því ekki eingöngu verið að telja ferðamenn. „Þeir fyrirvarar hefðu mátt vera settir skýrar fram frá upphafi og rétt að segja að um ákveðið andvaraleysi hafi verið að ræða í þeim efnum. Til dæmis hefði mátt leggja meiri áherslu á að um brottfarartalningar sé að ræða frekar en ferðamannatalningar.”
Sem fyrr segir þá töldu forsvarsmenn Isavia og Ferðamálastofu að hlutfall sjálftengifarþega væri ekki að valda mikilli skekkju. En kom ekki annað á daginn og afhverju hefur þetta ekki verið kannað fyrr? „Ferðamálastofa og Isavia hafa ávallt leitast við að tryggja gagnsæi brottfarartalninga og þjóðernagreininga, til að tölur um fjölda ferðamanna sem á þeim byggja séu sem áreiðanlegastar. Frá upphafi hefur verið ljóst að heildarbrottfarartölur næðu yfir hópa sem ekki teljast ferðamenn, s.s. fólk búsett á Íslandi en með erlent ríkisfang og farþega sem millilenda og nýta lausan tíma til heimsóknar inn í landið. Þegar Túristi vakti athygli á mögulegum þætti sjálftengifarþega í brottfarartölum var ráðist í að kanna þátt þeirra í heildartölum, og má raunar segja að umfjöllun á Túrista hafi ýtt á að sú könnun var gerð; vissulega hefði mátt ráðast í þessa greiningu fyrr,” segir Ólöf Ýrr.

Samkvæmt tilkynningu frá Ferðamálastofu verður vægi sjálftengifarþega kannað á ný í vetur. En miðað við þá miklu skekkju sem nú er komin fram í tölu sem stjórnvöld, hagsmunaðilar, fjármálastofnanir, fjölmiðlar og fleiri nota til að meta umsvifin í ferðaþjónustu, einni mikilvægustu atvinnugrein landsins, þá hlýtur að teljast áríðandi að fá tíðari og ítarlegri greiningar á farþegaflóru Keflavíkurflugvallar. Enginn veit t.d. hvernig þessi 11 til 14% skekkja kemur fram eftir þjóðum eða árstímum. Hins vegar eru vísbendingar um að fyrir sumar þjóðir, t.d. Kanadabúa, þá sé Keflavíkurflugvöllur að verða mjög öflug samgöngustöð fyrir Evrópuflug líkt og Túristi hefur fjallað um.