Fyrrum forstjóri Flugleiða til WOW air

Ragnhildur Geirsdóttir hefur verið ráðin sem aðstoðarforstjóri WOW air og Skúli Mogensen einbeitir sér að „hernaðarleyndarmálum".

wow ragnhildur

Í febrúar árið 2005 tók Ragnhildur Geirsdóttir, þáverandi framkvæmdastjóri hjá Icelandair, við sem forstjóri Flugleiða sem var þá heiti móðurfyrirtækis flugfélagsins. En hjá Icelandair hafði hún starfað allar götur síðan árið 1999. Ragnhildur lét hins vegar af starfi forstjóra Flugleiða eftir aðeins 8 mánuði en hefur síðan þá verið forstjóri Promens og framkvæmdastjóri hjá Landsbankanum. Í dag hóf hún svo að nýju störf í fluggeiranum og nú sem aðstoðarforstjóri WOW air. En flugáætlun íslenska lággjaldaflugfélagsins er í dag mun viðameiri en áætlun Icelandair var á þeim árum sem Ragnhildur starfaði þar. Og í farþegum talið er WOW air í dag álíka stórt flugfélag og Icelandair var fyrir tveimur árum síðan.

Starfsstöð í útlöndum

Í tilkynningu frá WOW segir að með tilkomu Ragnhildar muni Skúli Mogensen, stofnandi og forstjóri félagsins, einbeita sér að langtíma stefnumótun og uppbyggingu WOW air erlendis sem og innleiðingu á tækninýjungum sem hafa ekki áður þekkst í flugheiminum. Aðspurður um hvort þær tækninýjungar snúi að sölu- og markaðsmálum eða flugflota félagsins segir Skúli, í svari til Túrista, að það sé hernaðarleyndarmál.

Það er hins vegar ekkert leyndarmál að forsvarsmenn WOW air hafa skoðað þann möguleika að opna starfsstöð út í heimi og hefur flugvöllurinn Dublin verið nefndur sem ákjósanlegur kostur.