Samfélagsmiðlar

Geta engu svarað um framtíð Íslandsflugs Airberlin

Airberlin hefur lengi verið eitt umsvifamesta erlenda flugfélagið á Keflavíkurflugvelli en nú er uppi mikil óvissa um framhaldið og talsmaður félagsins segist ekkert geta sagt um áframhaldandi starfsemi þess á Íslandi.

airberlin 860

Forsvarsmenn Airberlin fóru fram á greiðslustöðvun í gær en þetta næst stærsta flugfélag Þýskalands hefur verið stórtækt í Íslandsflugi allt frá því að jómfrúarferðin hingað var farin sumarið 2006. Í tilkynningu frá flugfélaginu segir að þýska ríkið, Lufthansa og fleiri aðilar ætli að styðja rekstur félagsins næstu misseri og engar breytingar verði gerðar á flugáætluninni. En Airberlin flýgur til Keflavíkurflugvallar allt árið um kring frá Berlín og Dusseldorf og starfrækir jafnframt sumarflug hingað frá Munchen og Vínarborg, í samstarfi við dótturfélagið FlyNiki. Í svari frá Airberlin í dag, við fyrirspurn Túrista, segir að ekki sé hægt að gefa neinar upplýsingar um framtíð einstakra flugleiða eins og sakir standa og það eigi líka við flugið til Íslands.

Viðskiptavinir ferðaskrifstofa betur settir við gjaldþrot

Þar með fást ekki upplýsingar um hvort Airberlin muni halda Íslandsfluginu í vetur áfram en hins vegar er hægt að panta farmiða með félaginu héðan til bæði Berlínar og Dusseldorf næstu mánuði. Þeir sem eiga bókaða miða með Airberlin eða íhuga að kaupa far verða að hafa í huga að samkvæmt evrópskum reglum þá bæta tryggingar ekki tjón vegna gjaldþrota flugfélaga. Farþegar sem eiga ónotaða flugmiða geta hins vegar gert kröfu í þrotabú viðkomandi flugfélags og eins eru líkur á að kreditkortafyrirtæki geti endurgreitt miðaverðið. Öðru máli gegnir hins vegar um þá sem hafa keypt pakkaferð, t.d. hjá ferðaskrifstofu, því þá er ferðaskrifstofan ábyrg eins og lesa má á vef Samgöngustofu. Viðskiptavinir ferðaskrifstofa eru líka betur settir ef rekstur flugfélags stöðvast á meðan viðkomandi er í útlöndum því þá skal ferðaskrifstofan koma farþeganum heim. Þeir sem aðeins hafa keypt flugmiða verða hins vegar að koma sér heim fyrir eigin reikning og svo gera kröfu í þrotabúið.

Kostir í stöðunni fyrir Icelandair og WOW

Auk Airberlin þá flýgur WOW air einnig milli Íslands og höfuðborgar Þýskalands allt árið um kring og fyrstu þrjá mánuði ársins þá nýttu 41 prósent fleiri Íslendingar sér þessar áætlunarferðir en á sama tíma í fyrra. Í heildina fóru 2.389 Íslendingar til Berlínar á fyrsta ársfjórðungi og meira en helmingur þeirra var á ferðinni í mars þegar 40 Íslendingar á dag mættu til borgarinnar að jafnaði. Hlutfall íslenskra farþega í flugvélunum sem fljúga héðan til Berlínar er því ekki ýkja hátt og en það gæti þó verið tækifæri í því fyrir Icelandair að blanda sér á ný í baráttuna um farþega á leið milli Berlínar og Íslands en Icelandair flaug til Berlínar nokkur sumur á árunum fyrir hrun. Stærsti markaðurinn sem Airberlin myndi skilja eftir sig fyrir íslensku flugfélögin eru allir þeir sem vilja fljúga milli Berlínar og N-Ameríku en frá þýsku höfuðborginni flýgur Airberlin til Los Angeles, San Francisco, Miami, Chicago og New York. Allar þessar fimm borgir eru hluti að leiðakerfi WOW air en Icelandair flýgur aðeins til þeirra tveggja síðastnefndu. Það er líka ólíklegt að Airberlin haldi áfram að fljúga vestur um haf frá Berlín ef félagið endar í eigu Lufthansa, eins og forstjóra Ryanair þykir borðleggjandi, því allt Ameríkuflug Lufthansa fer fram frá Frankfurt og Munchen. Eins hefur þýska ríkisstjórnin gefið út að verðmæt lendingarleyfi Airberlin í Bandaríkjunum og víðar séu trygging fyrir því að þýska ríkið fái endurgreidd þau lán sem Airberlin hefur fengið til að halda rekstrinum gangandi á næstunni.

Nýtt efni

Mitt inn í dimmum Grünheideskógi skammt frá Berlín hafa 80 manneskjur komið sér fyrir í kofum sem þau hafa byggt hátt uppi trjánum. Kofaþorpið eru bækistöðvar mótmælenda eða aðgerðarsinna eins og þau kalla sig. Einmitt inni í þessum sama skógi hyggst bandaríski rafmagnsbílaframleiðandinn Tesla stækka svokallaða gígaverksmiðju sem var tekin var í notkun í mars …

Lufthansa hefur náð samkomulagi við verkalýðsfélagið Verdi og þar með er endi bundinn á langa vinnudeilu við flugvallarstarfsfólk þýska flugfélagsins. Flugáætlun Lufthansa fer því ekki úr skorðum yfir páskana líkt og útlit var fyrir en félagið er með þrjár flugferðir til Íslands á áætlun sinni yfir hátíðarnar. Hinn nýi samningur Verdi og Lufthansa kemur í …

Það voru 561 þúsund skráðar gistinætur hér á landi í febrúar sem er um 2,5 prósent samdráttur í samanburði sama tímabil í fyrra. Ef tekið er tillit til hlaupársdagsins þá var fækkunin ennþá meiri eða nærri 6 af hundraði. Á hótelum landsins voru gistinæturnar 373 þúsund sem er ögn meira en í febrúar í fyrra …

Þegar Hagstofan leggur mat á breytingar á verðlagi þá er meðal annars horft til fargjalda, bæði í flug innanlands og til útlanda. Samkvæmt nýjum verðmælingum Hagstofunnar þá lækkaði farið frá Keflavíkurflugvelli um 5 prósent í mars en farþegar í innanlandsflugi þurftu að borga 16 prósent meira en í fyrra. Á sama tíma hækkaði verðlag í …

„Undanfarna mánuði hafa stjórnmálamenn og verkalýðsforingjar viðrað hugmyndir um að hækka virðisaukaskattshlutfall ferðaþjónustu í 24%. Almenn greining á grundvelli viðtekinnar þjóðhagfræði, sem SAF hefur látið vinna, bendir til þess að slík hækkun myndi almennt hækka verðlag og þar með verðbólgu á viðkomandi ári, lækka veltu í ferðaþjónustu, veikja samkeppnishæfni hennar, lækka verga landsframleiðslu og auka …

Xiaomi er hraðvaxta hátæknifyrirtæki í Beijing í Kína, stofnað fyrir 14 árum af frumkvöðlinum og milljarðamæringnum Lei Jun og félögum hans. Á síðasta ári var fyrirtækið í þriðja sæti á lista þeirra sem seldu flesta farsímana - næst á eftir Samsung og Apple. Xiaomi framleiðir og selur margskonar annan háþróaðan tæknibúnað og neytendavörur en samdráttur …

Fyrir rúmu ári var greint frá því að þýska Lufthansa-samsteypan hefði áhuga á að kaupa 40 prósenta hlut í ítalska þjóðarflugfélaginu ITA en niðurstaða hefur ekki enn fengist. Í janúar hóf Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins rannsókn á samkeppnisáhrifum þess að Þjóðverjarnir eignuðust stóran hlut í ítalska flugfélaginu sem lengi hefur verið stjórnvöldum á Ítalíu höfuðverkur.  Nú í …

Fyrir mánuði sendi Storytel frá sér fréttatilkynningu þar sem kynnt var ný þjónusta fyrir notendur. Brátt eiga hlustendur hljóðbóka möguleika á að velja nýjan lesara ef þeim líkar ekki innlesturinn. Valraddirnar eru allar skapaðar af vélmennum eða svokölluðum gervigreindarupplesurum.  Þetta nýja verkfæri Stoyrtel er tekið í gagnið vegna þess að 89 prósent af þeim sem …