Icelandair tengir Cleveland við Evrópu

Frá og með maí á næsta ári mun Icelandair fljúga allt árið um kring til Cleveland og verður þar með eina evrópska flugfélagið þar í borg.

Í byrjun sumars fór Icelandair í jómfrúarferð sína til Philadelphia í Bandaríkjunum og eftir hálfan mánuð hefst flug félagsins til Tampa í Flórída. Í maí á næsta ári bætist svo nítjándi áfangastaður Icelandair í Bandaríkjunum við þegar heilsársflug til Cleveland í Ohio fylki hefst. „Cleveland er áfangastaður sem fellur vel að leiðakerfi okkar og þéttir og styrkir tengiflugið til og frá Evrópu“, segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair, í tilkynningu. En í dag er ekki í boði neitt áætlunarflug til Evrópu frá Cleveland þrátt fyrir að íbúar borgarinnar séu um 2,2 milljónir og hún sé mikil menningar- og íþróttaborg. Þar heldur m.a. til Cavaliers körfuboltaliðið sem Lebron James, ein skærsta stjarna NBA, leikur með.

Heppilegur staður fyrir nýju MAX þoturnar

Það tekur um sex tíma að fljúga frá Keflavíkurflugvelli til Cleveland og fyrsta ferð Icelandair til borgarinnar er á dagskrá um svipað leyti og er ráðgert að flugfélagið fái afhentar fyrstu Boeing MAX þoturnar sem pantaðar voru árið 2012. Þessar nýju farþegaþotur gætu nýst í vel í flugið til Cleveland því þær taka færri farþega en vélarnar sem fyrir eru flota Icelandair og það er kostur þegar flogið er til minni borga þar sem markaðurinn er takmarkaðri. Cleveland flugvöllur er til að mynda minni en allir þeir flugvellir í Bandaríkjunum sem Icelandair flýgur til í dag að Ted Stevens í Anchorage undantöldum. En þangað flýgur Icelandair aðeins yfir sumarmánuðina.