Airberlin greiði fyrirfram á Keflavíkurflugvelli

Flugstjórum Airberlin verður fylgt í hraðbanka á Genfarflugvelli við komuna þangað hafi vinnuveitendur þeirra ekki staðið skil á lendingargjöldunum. Nú verða stjórnendur flugfélagsins einnig að borga fyrirfram á Keflavíkurflugvelli.

Tólftu sumarvertíð Airberlin á Keflavíkurflugvelli er senn að ljúka en framtíð þess næststærsta flugfélags Þýskalands er óljós eftir að forsvarsmenn þess óskuðu eftir greiðslustöðvun í vikunni. Þýska ríkið hljóp undir bagga og veitti félaginu lán sem á að duga til rekstursins í þrjá mánuði eða svo og aðalkeppinauturinn, Lufthansa, íhugar að taka félagið upp á sína arma. Óvissan er engu að síður mikil og stjórnendur Genfarflugvallar hafa til að mynda farið fram á að Airberlin borgi lendingargjöld sín fyrirfram. Ef það er ekki gert verður flugstjórum félagsins fylgt í hraðbanka og þeir látnir taka út fyrir lendingargjöldunum sem nema  um 55 þúsund íslenskum krónum.
Að jafnaði lenda þotur Airberlin á Keflavíkurflugvelli tvisvar til þrisvar á dag á sumrin en í vetur er gert ráð fyrir nokkrum ferðum í hverri viku. Aðspurður um hvort Isavia ætli að fylgja fordæmi flugvallarstjórans í Genf segir Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia, í svari til Túrista, að frá og með mánudeginum þá verði Airberlin að greiða lendingargjöld sín eina viku fram í tímann miðað við flugáætlun.  En samkvæmt verðskrá Keflavíkurflugvallar þá kostar um 100 þúsund krónur að lenda miðlungsstórri farþegaþotu á Keflavíkurflugvelli.

Farþegar á eigin vegum ef kemur til gjaldþrots

Í dag er hægt að bóka farmiða héðan með Airberlin í allan vetur til bæði Berlínar og Dusseldorf en þar sem óvissa ríkir um reksturinn þá er töluverð áhætta fólgin í því að panta far langt fram í tímann með flugfélaginu. Stærstu neytendasamtök Danmerkur hafa því beint þeim tilmælum til sinna félagsmanna að bóka ekki farmiða með Airberlin. Farþegarnir eru nefnilega ekki öruggir með endurgreiðslu á miðanum ef reksturinn stöðvast líkt og Túristi greindi frá. Talskona Airberlin getur heldur engin svör veitt um framhald Íslandsflugsins.