Íslensku flugfélögin með 3 af hverjum 4 ferðum

Þrátt fyrir að flugfélögunum fjölgi á Keflavíkurflugvelli er það ennþá Icelandair og WOW air sem standa undir bróðurparti alls áætlunarflugsins þaðan.

kef icelandair wow

Farþegum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar stóðu til boða um hundrað áætlunarferðir á dag til útlanda í júlí með 25 flugfélögum. Það er um fimmtungi fleiri brottfarir en í júlí í fyrra samkvæmt daglegum talningum Túrista. Erlendu flugfélögunum hefur að sama skapi fjölgað á milli ára en það hefur hins vegar ekki orðið til þess að staða Icelandair og WOW air hafi veikst því félögin tvö stóðu áfram fyrir þremur af hverjum fjórum ferðum frá landinu í júlí líkt og þau gerðu á sama tíma á síðasta ári.

Mesta viðbótin við flugumferðina kemur nefnilega til vegna aukinna umsvifa íslensku flugfélaganna tveggja. Það þriðja íslenska, Air Iceland Connect, hefur líka bætt í flugið frá Keflavíkurflugvelli og stendur fyrir nærri einni af hverjum 100 ferðum þaðan. Þar á meðal eru ferðir til Akureyrar.

Innbyrðis vægi Icelandair og WOW air hefur hins vegar breyst mikið eins og sjá má á súluritinu hér fyrir neðan. Í júlí í hittifyrra var Icelandair til að mynda með um tvær af hverjum þremur ferðum og WOW air 16 prósent. Í dag er vægi flugáætlunar Icelandair hins vegar akkúrat helmingur en WOW er með fjórðung ferða.