Íslensku flugfélögin berjast um Berlín

Icelandair ætlar að hefja flug til þýsku höfuðborgarinnar og WOW fjölgar ferðunum þangað en framtíð umsvifamesta flugfélags borgarinnar er í mikilli óvissu.

berlin sol

Aðeins þremur dögum eftir að stjórnendur Airberlin fóru fram á greiðslustöðvun tilkynntu forsvarsmenn Icelandair að félagið myndi hefja flug til Berlínar allt árið um kring. Fyrsta ferðin verður farin í nóvember og munu þotur félagsins lenda á Tegelflugvelli í vesturhluta borgarinnar. Aðspurður um hvort ástandið hjá Airberlin hafi eitthvað með ákvörðunina að gera segir Guðjón Arngrímssom, talsmaður Icelandair, að þar á bæ hafi verið fylgst vel með þessum markaði og greiðslustöðvun Airberlin hafi kemur vissulega hreyfingu á.
Örstuttu eftir tilkynningu Icelandair á föstudag gaf WOW air það út að félagið myndi fjölga ferðum sínum til Schönefeld flugvallar í austurhluta Berlínar úr sjö í átta í viku.

Airberlin með stóra hlutdeild í Berlín

Það er því greinilegt að forsvarsmenn íslensku flugfélaganna sjá möguleika í þeirri stöðu sem komin er flugsamgöngum til og frá Berlín líkt og Túristi hafði spáð. Í dag stendur Airberlin nefnilega fyrir nærri þremur af hverjum 10 áætlunarferðum frá þýsku höfuðborginni og tækifærin fyrir WOW og Icelandair eru ekki aðeins fólgin í fólksflutningum milli Íslands og Berlínar heldur aðallega að bjóða í ferðum milli Berlínar og N-Ameríku, með tengingu á Keflavíkurflugvelli. En líkt og kom fram í greiningu Túrista þá flýgur Airberlin í dag til fimm borga vestanhafs og þær eru allar hluti af leiðakerfi WOW air. Icelandair flýgur til tveggja af þessum fimm, þ.e. New York og Chicago.
Eins og Túristi greindi frá í gær þá hefur Isavia farið fram á fyrirframgreiðslu á lendingargjöldum frá Airberlin en þotur félagsins lenda að jafnaði tvisvar til þrisvar á dag á Keflavíkurflugvelli.

Í fyrsta sinn sem Icelandair fer eftir WOW

Berlín hefur verið hluti að leiðakerfi WOW air allt frá stofnun 2012 en Icelandair spreytti sig á flugi þangað nokkur sumar fyrir um áratug síðan. Samkvæmt því sem Túristi kemst næst hefur Icelandair hingað til ekki hafið flug til borgar sem WOW air flýgur þegar til. Eins og gefur að skilja hefur WOW air hins vegar farið í samkeppni við Icelandair á fjöldamörgum áfangastöðum og í viðtalið við fréttastofu RÚV á fimmtudag sagði Skúli Mogensen, eigandi og forstjóri WOW, að á næstunni myndi félagið bæta við nýjum áfangastöðum. Ekki er ólíklegt að þar verði að finna áfangastaði í N-Ameríku sem Icelandair flýgur til í dag, t.d. Seattle, Orlando eða Denver. Það gæti einnig verið stutt í að farþegar á Keflavíkurflugvelli geti flogið beint til Las Vegas en norska lággjaldaflugfélagið Norwegian gaf þá flugleið nýverið upp á bátinn og WOW gæti séð tækifæri í að fylla í þá eyðu.