Kynnisferðir vinna með Tripadvisor

Breskir og bandarískir notendur einnar vinsælustu ferðasíðu heims geta unnið Íslandsferð í haust.

„Ísland er orðinn einn af aðaláfangastöðum forvitinna og nýjungagjarna ferðamanna hvaðanæva að úr heiminum og erum við ánægð að geta aðstoðað fólk við að gera draumaferð sína til Íslands að veruleika,“ segir Nicole Brown, forstöðumaður hjá TripAdvisor, í tilkynningu þar sem samstarf ferðasíðunnar vinsælu og Kynnisferða er kynnt. Hið sameiginlega markaðsátaka fyrirtækjanna ber heitið „Unleash Iceland“ og hefur verið í undirbúningi síðastliðið ár og markmiðið er að kynna landið sem gæðaáfangastað. ,,Það er mikill heiður fyrir Kynnisferðir að fá að vinna með TripAdvisor í kynningarátaki á Íslandi og að skipulagningu á sérstakri dagsferð,“ segir Kristján Daníelsson forstjóri Reykjavik Excursions – Kynnisferða.

Hluti af kynningunni á „Unleash Iceland“ er happdrætti þar sem Bretum og Bandaríkjamönnum gefst kostur á að vinna ferð til Íslands í lok október. Um er að ræða fjögurra daga lúxusferð þar sem innifalið er flug, gisting og þrjár sérsniðnar ferðir með Reykjavik Excursions. Sú fyrsta mun vera lúxusútgáfu af „Unleash Iceland“ dagsferðinni og hluti af henni er einkaleiðsögn um Raufarhólshelli, heimsókn í Skyrgerðina í Hveragerði og norðurljósaleit. Suðurströndin, Lava Centre á Hvolsvelli, þyrluútsýnisflug og gist verður í  fullinnréttuðu og upphituðu tjaldi út í íslenskri náttúru um nóttina. Þriðja dagsferðin er um Reykjanesið þar sem farið er yfir sögu, jarðfræði og menningu.