Margfaldur vöxtur hjá Hotel Tonight á Íslandi

Umsvif hótelbókunarfyrirtækisins Hotel Tonight hafa aukist hratt á íslenska markaðnum. Langflestir bóka herbergi samdægurs.

hoteltonight amirsegall

Forsvarsmenn stærstu hótelkeðja landsins segja samdrátt hafa orðið í pöntunum sem gerðar eru stuttu fyrir komu líkt og Túristi greindi frá nýverið. Hjá Hotel Tonight, sem sérhæfir sig í þess háttar pöntunum, hafa umsvifin hér á landi hins vegar aukist hratt. „Vöxtur okkar á Íslandi í ár, sérstaklega í Reykjavík, er margfaldur. Sterkur dollari og sú staðreynd að Bandaríkjamenn standa undir stærstum hluta bókanna okkar á Íslandi gerir Hotel Tonight að mjög öflugum valkosti þegar kemur að því að koma út hótelherbergjum með stuttum fyrirvara. Það skiptir líka máli að hótelstjórar geta í gegnum Hotel Tonight beint tilboðum að fólki á ákveðnum svæðum og jafnvel boðið þeim eitthvað aukalega,” segir Amir Segall, framkvæmdastjóri alþjóðasviðs Hotel Tonight. Að hans sögn kemur 65 prósent allra bókanna hjá Hotel Tonight á Íslandi frá bandarískum ferðamönnum en tíunda hver pöntun kemur frá Bretum og Írum.

Flestir bóka rétt fyrir komu

Sá hópur ferðafólks hér á landi sem bókar gistingu jafnvel nokkrum klukkutímum fyrir háttatíma er nokkuð stór því að sögn Segall eru 7 af hverjum 10 pöntunum Hotel Tonight á Íslandi gerðar samdægurs. „Fimmtán prósent kemur inn deginum áður, tíunda hver pöntun berst 2 til 3 dögum áður og síðustu 5 prósentin bóka með fjögurra til sjö daga fyrivara. Þessi hlutföll hafa ekkert breyst jafnvel þó bókununum hafi fjölgað,“ bætir Segall við en eins og kom fram í viðtali Túrista við hann í vor þá var íslenski hótelmarkaðurinn í forgangi hjá fyrirtækinu fyrir sumarið.